Stök frétt

Heilbrigðiseftirlit Kjósarsvæðis hefur tekið sýni og látið mæla gerlafjölda við ströndina í Mosfellsbæ og á Seltjarnarnesi frá árinu 2004. Markmið með rannsókninni er að bera mengun við ströndina saman við viðmiðunarmörk í reglugerð um fráveitur og skólp, nr. 798/1999.

Niðurstöður saurgerlamælinga á fimm stöðum í Mosfellsbæ benda til að saurkólígerlar séu yfir viðmiðunarmörkum í 60% tilvika og enterokokkar í 51% tilvika. Mengun í sjónum fyrir utan Mosfellsbæ er mest næst skólpútrásum en minnkar með fjárlægð frá þeim.

Niðurstöður úr sýnatöku við Seltjarnarnes benta til að viðvarandi saurgerlamengun er á þremur af fimm sýnatökustöðum og þá sérstaklega yfir dimmustu vetrarmánuði ársins. Í 44% tilvika mælist saurkólígerlamengun yfir viðmiðunarmörkum og 23% vegna enterokokka. Skólpmengun á norðurströnd Seltjarnaress bendir til að mengun sé annað hvort að berast þangað frá dælustöðinni í Reykjavík eða að það flæði um neyðarútrásir í holræsakerfinu þegar ekki á að flæða um þær. Mengun á Suðurströndinni skýrist af skólpútrásum þar, en um helmingur skólps á Seltjarnarnesi berst í sjóinn þar.

Á ráðstefnu sem haldin var mánudaginn 24. október í tilefni af 10 ára afmæli laga nr. 53/1995 um stuðning við framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum, kom fram að tæp 70% landsmanna væri með fullnægjandi fráveitu og að miklar framfarir hafi orðið í þeim málum á síðustu árum. Samkvæmt núgildandi lögum hafa sveitarfélögin hafa frest til ársloka 2005 til að ljúka framkvæmdum við fráveitur.