Stök frétt

Flestir vita að með notkun jarðefnaeldsneytis, þ.e. olíu og olíuafurða, er gengið á óendurnýjanlegar orkulindir heimsins. Því hefur í síauknum mæli verið leitað ráða til að draga úr notkun þessarar auðlindar svo og hvað hægt sé að nota í staðinn fyrir hana. Til viðbótar við auðlindasjónarmið er ljóst að brennsla jarðefnaeldsneytis mengar andrúmsloftið. Samkvæmt útstreymisbókhaldi Umhverfisstofnunar eiga 59% af losun gróðurhúsalofttegunda rót að rekja til notkunar jarðefnaeldsneytis. Einnig mælist staðbundin loftmengun af völdum útblásturs í þéttbýli, sem skerðir loftgæði þar.

Á ríkisstjórnarfundi hinn 13. janúar 2004 var tekin ákvörðun um að hrinda af stað verkefni sem nefnt var "vettvangur um vistvænt eldsneyti", með aðsetur á Orkustofnun. Hlutverk vettvangsins er að stuðla að bættri orkunotkun í þeim tilvikum þar sem jarðolíuafurðir eru nú notaðar sem eldsneyti og auka notkun vistvænni orkubera þegar kostur er.

Í nýrri skýrslu um verkefnið eru m.a. reifaðar hugmyndir um hvernig draga megi úr og bæta notkun jarðefnaeldsneytis hér á landi, skilyrði sem þarf að uppfylla til að ná meginmarkmiðum breyttrar eldsneytisnotkunar, sem eru þau að draga úr mengun og auka hagkvæmni í eldsneytisnotkun. Ljóst er að margar leiðir eru til þess að draga úr notkun jarðefnaeldsneytis og þeirri mengun sem henni fylgir. Sumar leiðir krefjast gerbreyttrar tækni, til dæmis notkun vetnis eða rafmagns sem orkubera. Aðrar miða að því að breyta notkun okkar á ráðandi tækni, eins og með því að nota sparneytnari bensínbíla eða eldsneyti unnið úr úrgangi og að bæta orkunýtingu fiskiskipa. Einnig má reyna að hafa áhrif á venjur neytenda, til dæmis með því að stuðla að auknum hjólreiðum og aukna notkun almenningssamgangna.

Meðal þess sem lagt er til er að "verðleggja" mengun og umhverfisáhrif til þess að stuðla að sem hagkvæmastri nýtingu auðlinda. Einnig að breyta tollastefnu á þann veg að gera beint og gegnsætt samband milli mengunar og opinberra gjalda og einnig mætti fella úr gildi undanþágur og sérákvæði sem hvatt geta til aukinnar mengunar. Þannig má gera sparneytnari og minna mengandi farartæki að álitlegum valkosti fyrir neytendur.

Skýrsluna má nálgast hjá Orkustofnun eða skoða á rafrænu formi (PDF).