Stök frétt

Svifryk mældist yfir heilsuverndarmörkum í borginni fimmtudaginn 24. og föstudaginn 25. nóvember síðastliðinn og aftur núna dagana 1.-3. desember. Sólarhringsgildi fóru þessa daga yfir viðmiðunarmörk við mælistöðina á Grensás. Í mælingu við Fjölskyldu- og húsdýragarðinum voru gildin einnig yfir viðmiðunarmörkum föstudaginn 25. nóvember og föstudaginn 2. desember. Mengun yfir heilsuverndarmörkum getur því legið yfir allri borginni. Svifryk hefur 18 sinnum farið yfir heilsuverndarmörk á þessu ári á stöðinni í Grensás.

„Ásamt útblæstri bíla má segja að umferðin ein og sér leggi til um 75% af svifryki á höfuðborgarsvæðinu. Óhætt er að fullyrða að hlutur svifryks í lofti af völdum umferðar sé hlutfallslega meiri hér en víða í öðrum löndum. Hágildin yfir umhverfismörkum eru í svipuðu magni hér og mælist erlendis þar sem fleiri uppsprettur svifryks eru til staðar, “ segir Lúðvík Gústafsson deildarstjóri Mengunarvarna Umhverfissviðs.

„Þetta sýnir að þótt svifryk mælist mest við helstu umferðaræðar getur það, þegar veðuraðstæður eru eins og þær voru þessa daga, verið yfir mörkum nánast allsstaðar í borginni,C segir Lúðvík Gústafsson deildarstjóri Mengunarvarna. Ástæðan er lítill vindhraði, lágt hitastig og að þurrt var í veðri þannig að rykagnir voru ekki bundnar með raka.

Hann segir vindhraða ráða mestu um stöðuna því jafnvel lítil hreyfing í lofti dugi til að blása rykagnir í burtu, en það einmitt gerðist seinnipartinn hinn 24. nóvember vegna gjólu um þrjúleytið. Þá varð hraður samdráttur ryks í loftinu, en um leið og lægði um morguninn næsta dag, þann 25. reis styrkur svifryks aftur.

Viðmiðunarmörk lækka

Rannsóknir hafa sýnt að langstærsti hluti svifryks eða um 60% er vegslit sérstaklega að vetri til, en lítið sem ekkert mælist af öðrum rykuppsprettum sem algengar eru í öðrum löndum, svo sem frá iðnaði, orkuframleiðslu og húsahitun. Ásamt útblæstri bíla má segja að umferðin leggi til um 75% af svifryki á höfuðborgarsvæðinu. „Ef nagladekk yrðu takmörkuð myndum við sjá lægri tölur, en það myndi þó ekki duga til, því einnig þyrfti að draga úr umferð til að breyta þessum tölum,” segir Lúðvík.

Svifryk hefur 20 sinnum farið yfir heilsuverndarmörk á þessu ári á stöðinni í Grensás, en svifryk er talin ein helsta orsök heilbrigðisvandamála sem rekja má til mengunar í borgum. Mörkin hafa verið að ekki sé farið yfir heilsuverndarmörk oftar en í 35 skipti á ári á einni mælingarstöð, en þessi mörk munu lækka á komandi arum samkvæmt reglugerð nr. 521/2002. Á næsta ári eru viðmiðunarmörkin 29 skipti en árið 2010 verða þau komin í 7 skipti. Fyrirsjáanlegt er því að yfirvöld verði að grípa til aðgerða á næstu árum.

Uppspænt malbik

Í Reykjavík er 50-60% svifryks uppspænt malbik, sót er 10-15 % og afgangurinn eða 25% er af náttúrulegum völdum. Núna er miðað við mælinguna PM-10 sem er kornastærð sem á greiða leið í öndunarfærin eða lungun en það eru agnir sem haldast í lofti í lengri tíma en þyngra ryk. Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá Mengunarvörunum Umhverfissviðs segir að nú sé unnið að því innan Evrópusambandsins að gefa út tilskipun um hversu oft á ári enn fínna svifryk (PM-2,5) megi fara yfir heilsuverndarmörk. Hún segir að fínasta og hættulegasta rykið frá iðnaðartengdu efni en grófara ryk er oftar af náttúrulegum völdum. Anna segir að Umhverfissvið sé með þrjár mælistöðvar í borginni, eina við Grensásveg, eina í Fjölskyldu- og húsdýragarðinum til viðmiðunar og eina færanlega stöð.

Lúðvík E. Gústafsson og Anna Rósa Böðvarsdóttir hjá Mengunarvörnum Umhverfissviðs Reykjavíkurborgar hafa greint Umhverfisráði Reykjavíkur frá mælingum síðustu daga. Þau veita frekari upplýsingar í síma 411-8500.

Við þetta má bæta að í nýlegri rannsókn á samsetningu svifryksmengunar í Reykjavík kemur fram að malbik er 55%, jarðvegur 25%, sót 7%, salt 11% og bremsuborðar um 2%. Sjá nánar: Skýrsla um samsetningu svifryks í Reykjavík.