Stök frétt

Frá og með 1. janúar 2006 ber þeim sem flytja olíu, eiturefni eða hættuleg efni á sjó eða stunda atvinnustarfsemi sem getur valdið bráðamengun sjávar, að taka tryggingu vegna bráðamengunartjóns. Tryggingin skal bæta tjón allt að 1 milljón SDR vegna hvers einstaks tjónsatburðar eða samtals á tryggingarárinu. Þessi skylda er skv. 16. gr. laga nr. 33/2004, um varnir gegn mengun hafs og stranda.

Umhverfisráðuneytið hefur birt tvær reglugerðir um framkvæmd ákvæðanna, nr. 1078 um tryggingar skipa og starfsemi á landi vegna bráðamengunar, og nr. 1077/2005 sem kveður á um breytingu á reglugerð nr. 785/1999 um starfsleyfi fyrir atvinnurekstur sem getur haft í för með sér mengun, með síðari breytingum.

Samkvæmt reglugerðunum ber tryggingafélögum sem hyggjast bjóða vátryggingar vegna bráðamengunar hafs og stranda að kynna Umhverfisstofnun og Fjármálaeftirlitinu skilmála vátrygginga áður en þær eru boðnar á markaði. Starfandi fyrirtækjum ber eigi síðar en 15. febrúar nk. að skila til útgefanda starfsleyfis (Umhverfisstofnun eða heilbrigðisnefnd) staðfestingu á að starfsemin hafi tryggingu í samræmi við ákvæði 16. gr. laga nr. 33/2004 um varnir gegn mengun hafs og stranda, sbr. og ákvæði 3. gr. reglugerðar nr. 1078/2005, um tryggingar skipa og starfsemi á landi vegna bráðamengunar.