Stök frétt

Í dag birtist í Stjórnartíðindum ný auglýsing um Friðlandið Surtsey sem gekk í gildi þann 27. janúar 2006, nr. 50/2006 og er í henni fólgin umtalsverð stækkun sem nær ekki aðeins til Surtseyjar sjálfrar, sem er 1,4 ferkílómetrar, eins og fyrri friðlýsing, heldur allrar eldstöðvarinnar.

Nýja friðlýsingin nær þess vegna líka til neðansjávargíganna Jólnis, Syrtlings og Surtlu og hafsvæðis umhverfis eyjuna, alls um 65,6 ferkílómetra svæðis.

Stækkun friðlandsins tengist m.a. samþykkt ríkisstjórnarinnar frá því í desember um að tilnefna Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO.

Menntamálaráðherra, Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir og umhverfisráðherra, Sigríður Anna Þórðardóttir, undirrituðu í gær umsókn um tilnefningu Surtseyjar á heimsminjaskrá UNESCO.