Stök frétt

Yfir landinu liggur nú hlýr loftmassi, ættaður frá Evrópu. Þessum milda loftsmassa fylgir hlýtt og gott loftslag sem við njótum til hins ýtrasta í útveru. Þessu fylgir líka mistur, sem orsakast af mjög fínum svifögnum eða svifryk sem ættað er frá kolaorkuverum og þungaiðnaði Mið-Evrópu.

Þetta svifryk er af hættulegustu gerð, þar sem það er mjög fínt og fólk sem andar því að sér fær það alla leið út í smæstu lungnaberkjur. Við höfum ekki farið varhluta af svifryki hérlendis í þurrviðri á veturna, en þetta fína svifryk er að því leyti verra en göturykið að agnirnar eru yfirleitt fínni en vetrarsvifrykið sem svífur hér yfir götunum. Þetta mistur liggur einnig jafnt yfir alls staðar. Það er því ekki hægt að fara upp í Heiðmörk eða aðra álíka staði og til að forða sér frá svifrykinu. Mistrið er yfir öllu.

Í nýrri stefnumörkun Evrópusambandsins kemur fram að svifryk af þessari gerð veldur meira heilsutjóni en nokkuð annað form loftmengunar. Einnig kemur þar fram að það er ekkert sérstakt viðmiðunargildi til fyrir fínt svifryk þannig að ef styrkur þess er undir því gildi þá sé ástandi öruggt fyrir alla. Það finnast alltaf einstaklingar sem eru viðkvæmir fyrir fínasta rykinu. Til þess að bæta ástandið þarf því að draga úr losun á fínu ryki og losun lofttegunda sem geta myndað fínt svifryk í andrúmsloftinu. Stefnumörkunin miðar að því að minnka losun þessara efna verulega á næstu árum til þess að tryggja að loftgæði á næstu árum komi til með að batna og við getum notið loftslags af bestu gerð án þess að fá alla þessa mengun með því.