Stök frétt

Umhverfisráðherra Sigríður Anna Þórðardóttir, Davíð Egilson forstjóri Umhverfisstofnunar og Páll Brynjarsson bæjarstjóri Borgarbyggðar staðfestu yfirlýsingu og auglýsingu um stofnun fólkvangs í Einkunnum föstudaginn 19. maí.

Einkunnir eru klettaborgir sem rísa upp af mýrlendinu umhverfis. Þar eru einnig stöðuvatn, tjörn og lækir. Nafnið er fornt og kemur fyrir í Egils sögu og er því einnig um menningargildi að ræða.

Einkunnir og svæðið umhverfis þær er vel fallið til útivistar og náttúruskoðunar; landslagið er fagurt, skógur vöxtulegur og dýralíf allfjölbreytt. Aðgengi að svæðinu er gott og það er því ákjósanlegt til fræðslu og útikennslu.

Markmið með friðlýsingu Einkunna sem fólkvangs er að vernda jarðmyndanir og votlendi í þágu útivistar almennings, náttúruskoðunar og fræðslu.