Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur á undanförnum dögum fengið tilkynningar um að nokkuð sé um það að úðun garða sé hafin. Stofnunin vill af þessu tilefni benda garðeigendum á að garðaúðun er gagnslaus sem fyrirbyggjandi aðgerð og á það sérstaklega við núna í þessu þurra og kalda veðri. Einungis á að úða garða eftir að skaðvaldarnir hafa klakist út úr eggjum og sjást með berum augum.

Einnig skal vakin athygli á því að þeim einum er heimilt að stunda úðun garða í atvinnuskyni sem hafa í gildi réttindaleyfi frá Umhverfisstofnun, og skulu þeir ávallt bera leyfisskírteini á sér við störf sín og framvísa persónuskilríkjum sé þess óskað. Einnig er starfsleyfi frá viðkomandi heilbrigðisnefnd skilyrði þess að stunda megi garðaúðun í atvinnuskyni.

Nánari upplýsingar veita Umhverfisstofnun og Heilbrigðiseftirlit sveitarfélaga.