Stök frétt

Breyting hefur verið gerð á reglugerð nr. 697/2004 um takmörkun tiltekinna efna í raftækjum. Með breytingunni fjölgar undanþágum frá banni á tilteknum efnum í raftækjum eftir víðtækt samráð við framleiðendur og innflytjendur raftækja á Evrópska efnahagssvæðinu. Helstu breytingarnar eru fjölmargar nýjar undanþágur fyrir notkun blýs í raftækjum og fylgihlutum þeirra og allsherjar undanþága fyrir dekabrómdífenýleter sem eldtefjandi efni í fjölliðuðu efni.

Athygli skal sérstaklega vakin á að reglugerð um takmörkun tiltekinna efna í raftækjum gekk í gildi 1. júlí sl. Framleiðendur og innflytjendur eru hér með minntir á skyldur sínar við að tryggja að ný raftæki brjóti ekki í bága við ákvæði reglugerðarinnar.