Stök frétt

Rjúpa

Haustið 2005 hófust rjúpnaveiðar að nýju eftir tveggja ára friðun og höfðu veiðistjórnunaraðgerðir það markmið að veiðar yrðu innan við 75.000 rjúpur. Ljóst var að til þess að rjúpnaveiðar yrðu sjálfbærar til framtíðar væri nauðsynlegt að veiðimenn sýndu samstöðu um hófsama veiði.

Af veiðitölum og viðbrögðum veiðimanna má ráða að almennt hafa veiðimenn tekið áskorun um hóflegar veiðar og markmið veiðistjórnunaraðgerða haustið 2005 hafi náðst. Þetta er eflaust því að þakka að veiðimenn hafa axlað þá ábyrgð sem því fylgir að vera veiðimaður í íslenskri náttúru.

Þrátt fyrir þetta gengu væntingar um afkomu rjúpunnar ekki eftir. Ljóst er að margir þættir aðrir en skotveiðar hafa áhrif á afkomu rjúpunnar og það er talið líklegt að óhagstætt tíðarfar sumar og haust 2005 hafi verið afdrifaríkt. Í fyrra kom haustið snemma og var rysjótt auk þess sem slæmt vorhret í lok maí olli vanhöldum í varpi.

Í ljósi þessa hefur umhverfisráðherra ákveðið eftirfarandi:

  • Veiðitímabilið verði frá 15. október til 30. nóvember.
  • Veiðar verði ekki heimilaðar mánudaga, þriðjudaga og miðvikudaga á veiðitímabilinu.
  • Áframhaldandi sölubann á rjúpu og rjúpnaafurðum.
  • Áfram friðað svæði á Reykjanesskaga.
  • Hvatningarátaki meðal veiðimanna um hófsamar og ábyrgar veiðar verði haldið áfram.

Umhverfisstofnun hvetur veiðimenn til að sýna áfram hófsemi og veiða ekki meira en hver þarf fyrir sig og sína. Til þess að markmið veiðistjórnunar náist á komandi rjúpnaveiðitímabili þurfa allir veiðimenn að axla sameiginlega ábyrgð og veiða hóflega. Samkvæmt veiðitölum síðasta árs eru enn veiðimenn sem veiða langt umfram þau tilmæli og því enn rúm fyrir samdrátt í veiðum.

Brátt haldið skal til veiða
hátt upp til heiða
Í drottins dýrðar ríki
með haglabyssu og kíki

En huga skal að heiðri
og næsta sumars hreiðri
því mán, þri og mið
rjúpan skal fá frið.

 

Veiðistjórnunarsvið Umhverfisstofnunar