Stök frétt

Fyrirlestur um leirhluti og umbúðaefni í snertingu við matvæli verður haldinn þriðjudaginn 31.október 2006 kl. 15.00 – 16.00 á 5. hæð Umhverfisstofnunar Suðurlandsbraut 24, Reykjavík.

Ljóst er að glerungur á leirhlutum getur innihaldið blý og kadmíum og aðra þungmálma sem getur flætt í matvæli. Kynnt verður ný reglugerð um leirhluti sem út kom á þessu ári, en eitt meginmarkmið með henni er að hindra slíka efnamengun í matvæli. Einnig verður fjallað um samspil umbúða og matvæla og rætt um mikilvæg atriði varðandi plast- og pappírsumbúðir.

Mikilvægt er fyrir framleiðendur, dreifingaraðila og notendur þessara vara að kynna sér efnið vel, því aukin meðhöndlun, pökkun og dreifing matvæla gerir það að verkum að þau eru lengi í snertingu við hin ýmsu efni sem eru í ílátum og pakkningum.

Fyrirlesari er Dr. Grímur Ólafsson matvælafræðingur á matvælasviði Umhverfisstofnunar.

Vakin er athygli á nýútkomnu Upplýsinga- og staðreyndariti UST nr. 14, sem nefnist: Nýjar reglur um leirhluti sem ætlað er að snerta matvæli.