Stök frétt

Lögreglumenn sem voru í eftirliti í Víkurskarði í gærmorgun sáu hvar bíl hafði verið lagt í vegkantinn og hvar maður var á gangi með haglabyssu þar skammt frá. Gengu þeir til hans og höfðu tal af honum. Viðurkenndi maðurinn að vera á rjúpnaveiðum en kvaðst hafa steingleymt því að bannað væri að veiða á mánudegi. Þegar farið var að ræða við hann rámaði hann þó í að hafa heyrt á þetta minnst.

Þetta reyndist manninum dýr gleymska því hald var lagt á haglabyssu, skotfæri, tösku og rjúpnavesti, skotvopnaskírteini og veiðikort og má hann í ofanálag búast við að fá sekt fyrir brot á veiðilöggjöfinni. Enga hafði hann þó veitt rjúpuna.

Til þessa virðast veiðimenn almennt hafa farið að reglum og virt þær takmarkanir á rjúpnaveiðum sem settar voru en áréttað skal að rjúpnaveiði er bönnuð á mánudögum, þriðjudögum og miðvikudögum.