Stök frétt

Umhverfisstofnun auglýsir til umsagnar tillögu að starfsleyfi fyrir álver Alcoa-Fjarðaál sf. Tillagan liggur frammi til umsagnar á bæjarskrifstofum Fjarðabyggar að Hafnargötu 2 á tímabilinu frá 31. október til 28. desember 2006, og á skrifstofu Umhverfisstofnunar auk þess sem finna má tillöguna hér.

Helstu efnisbreytingar miðað við gildandi starfsleyfi eru að:

1. Framleiðslugeta álversins er aukin úr 322.000 tonnum á ári í 346.000 á ári, sem er sú hámarksframleiðslugeta sem áætlað er að álverið geti náð þegar til lengri tíma er litið.

2. Atriði sem tiltekin voru í eldra starfsleyfi og áttu að koma til framkvæmda áður en gangsetning hæfist eru felld út þar sem þeim verður lokið þegar nýtt starfsleyfi tekur gildi.

3. Heimilað magn brennisteinsdíoxíðs í útblæstri er aukið úr 12 kg/tonn í 13,5 kg/tonn. Þeir loftdreifireikningar sem kynntir voru í skýrslu fyrirtækisins um mat á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar sýna að með því að nota einn 78 metra háan skorstein er unnt að uppfylla öll umhverfismörk fyrir brennsteinsdíoxíð sem sett eru í reglugerð nr. 251/2002, um brennisteinsdíoxíð, köfnunarefnisdíoxíð og köfnunarefnisoxíð, bensen, kolsýring, svifryk og blý í andrúmsloftinu og upplýsingar til almennings.

4. Innan þynningarsvæðis er heimilt að styrkur vetnisflúoríðs fari í allt að 0,3 míkrógrömm á rúmmetra að meðaltali yfir gróðrartímabilið, eins og gert er ráð fyrir hjá öðrum álverum á Íslandi. Í eldra leyfi var gert ráð fyrir ferli þar sem hámark leyfilegs styrks utan þynningarsvæðis yrði lækkað, fyrst í 0,25 og síðar í 0,2 míkrógrömm á rúmmetra. Í niðurstöðu álits Skipulagstofnunar um mat á umhverfisáhrifum álversins kemur fram að óverulegur munur er á styrk annarra loftmengunarefna en brennisteinsdíoxíðs, hvort heldur sem notuð er þurrhreinsun eingöngu eða þurrhreinsun að viðbættri vothreinsun. Niðurstöður dreifireikninga benda til að eingöngu sé hætta sé á að styrkur vetnisflúoríðs fari yfir 0,2 míkrógrömm á rúmmetra ef vothreinsun er notuð til viðbótar við þurrhreinsun. Dreifireikningar benda ennfremur til þess að ef þurrhreinsun er notuð eingöngu verði styrkur vetnisflúoríðs í öllum tilvikum undir 0,2 míkrógrömm á rúmmetra utan þynningarsvæðis.