Stök frétt

Í dag milli kl. 12 – 15 fóru menn á vegum Umhverfisstofnunar um borð í Wilson Muuga og könnuðu ástand botntanka.

Í ljós kom að botntankar sem innihalda 70 tonn af svartolíu virðast heilir svo engin svartolía hefur lekið í sjóinn. Dálítil olíubrák sást á sjó stutt norðan við strandstaðinn og er það talin vera olía úr dísilolíutanki sem er undir vélarrúmi skipsins. Í honum voru 17 tonn af dísilolíu. Erfitt getur reynst að dæla olíunni úr þeim tanki þar sem hann er fullur af sjó en forgangsverkefni verður að dæla burt svartolíunni, fyrst úr hliðartönkum og síðan botntönkum um leið og veður og aðstæður leyfa. Skipið situr á klöpp og að sögn þeirra sem fóru um borð í dag virðist það mjög stöðugt.

Nú er mjög slæmt veður á Suðurnesjunum og fylgst verður með því hvernig skipinu reiðir af í nótt en spáð er skárra veðri á morgun en síðan á það aftur að versna. Í fyrramálið verður tekin ákvörðun um framhald aðgerða. Til að dæla olíunni 300 metra vegalengd í land þarf veður fyrst að ganga niður.