Stök frétt

Mynd: Long Truong á Unsplash

Á morgun, föstudaginn 1. júní, tekur gildi breytt reglugerð um takmarkanir á tóbaksreykingum. Eftir þann tíma verður óheimilt að reykja á veitinga- og skemmtistöðum en áður tóku lögin til opinberra stofnanna, skóla, almenningsfarartækja og vinnustaða, annarra en veitinga- og skemmtistaða.

Í 1. grein reglugerðarinnar segir: Ákvæði reglugerðar þessarar taka til takmarkana á tóbaksreykingum í samræmi við ákvæði laga um tóbaksvarnir. Markmið hennar er að tryggja að þeir sem ekki reykja verði ekki fyrir skaða og óþægindum af völdum tóbaksreyks.

Vinnueftirlit ríkisins, heilbrigðisnefndir sveitarfélaga, Siglingastofnun Íslands og Flugmálastjórn hafa, eftir því sem við á, eftirlit með því að virt séu ákvæði reglugerðar þessarar í samræmi við þau lög sem gilda um þessar stofnanir.

Umhverfisstofnun hefur það hlutverk samkvæmt lögum Nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir að samræma heilbrigðiseftirlit á landinu öllu, hafa nána samvinnu við heilbrigðisnefndir og veita ráðgjöf og þjónustu varðandi heilbrigðiseftirlit.

Hollustuhættir fjalla um heilsusamlegt umhverfi, aðbúnað og öryggi innanhúss hjá stofnunum og fyrirtækjum, sem almenningur sækir þjónustu til og Umhverfisstofnun mun því eiga samstarf við heilbrigðisnefndirnar um að reykingabanninu sé framfylgt með hagsmuni gesta og viðskiptavina í huga.