Stök frétt

REACH, ný reglugerð Evrópusambandsins um efni tekur gildi í Evrópu í dag, 1. júní 2007. REACH kveður á um skráningu, mat, leyfisveitingar og takmarkanir á notkun efna innan Evrópusambandsins. Aðalmarkmið reglugerðarinnar er að vernda heilsu manna og umhverfi sem mest fyrir áhrifum efna, liðka fyrir samkeppni í efnaiðnaði og efla þróun nýrra efna í Evrópu.

REACH er EB-reglugerð sem þýðir að einungis er hægt að innleiða hana í heild sinni og á sama hátt í öllum aðildarríkjum. Það sama gildir um EFTA löndin. Gert er ráð fyrir að gildistaka REACH á Íslandi verði á síðari hluta þessa árs.

Í tilefni gildistöku REACH í Evrópu hefur verið sett upp upplýsingasíða um REACH á heimasíðu UST. Á henni má finna upplýsingar um grunnþætti REACH og áhrif reglugerðarinnar á fyrirtæki sem framleiða, flytja inn, nota eða dreifa efnum. Einnig má finna tengla inn á ýmsar gagnlegar erlendar heimasíður.