Stök frétt

Ný reglugerð um næringar- og heilsufullyrðingar í merkingu matvæla (EC No 1924/2006) tók gildi innan Evrópusambandsins þann 1. júlí 2007. Unnið er að því að taka reglugerðina inn í EES-samninginn og síðan verður hún innleidd á Íslandi. Reglugerðin nær til allra matvæla þar með talið fæðubótarefna.

Samkvæmt 13, grein reglugerðarinnar skulu aðildarríki EB safna saman þeim heilsufullyrðingum sem hagsmunaaðilar óska eftir að nota. Þessar óskir verða sendar til framkvæmdastjórnarinnar þar sem unnið verður úr þeim og útbúinn listi yfir leyfðar heilsufullyrðingar. Sá listi verður hluti af reglugerðinni frá og með janúar 2010.

Umhverfisstofnun safnar nú saman þeim heilsufullyrðingum sem íslenskir framleiðendur eða innflytjendur óska eftir að koma á þennan lista. Fullyrðingarnar verða að vera rökstuddar með vísindalegum gögnum.

Hvernig á að senda inn óskir?

Hér er að finna eyðublað sem fylla þarf út og senda inn. Fylla skal út þá reiti sem við á. Eyðublaðið ásamt vísindagögnum sem styðja fullyrðinguna skulu svo send til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Gögnin er einnig hægt að senda með faxi: 591 2010 eða rafpósti til Brynhildar Briem (brynhildur hjá ust.is) eða Jónínu Þ. Stefánsdóttur (jonina hjá ust.is)

 

Frestur til að senda inn óskir rennur út 1. október 2007

 

Hvað er vísindalegur rökstuðningur?

  • Greinar úr ritrýndum tímaritum (peer-reviewed)
  • Afrit af niðurstöðum rannsókna (helst gerðar af óháðum aðila), ritrýndar
  • Álit vísindanefnda (svo sem EFSA, WHO)
  • Kaflar úr viðurkenndum fagbókum um næringar- lífeðlis- eða lífefnafræði (viðtekin vísindi)

Evrópusambandið tekur hvorki við gögnum úr tímaritum eða dagblöðum sem ætluð eru almenningi né bæklingum frá framleiðendum þar sem vörur eru kynntar.

 

Hvað er fullyrðing / heilsufullyrðing?

  • Fullyrðing (claim) er merking eða tilvísun á hvaða formi sem er, sem greinir frá eða gefur til kynna að matvæli hafi sérstaka eiginleika.
  • Heilsufullyrðing (health claim) er fullyrðing sem fjallar um samhengi neyslu vörunnar og heilsufars eða einhvers konar áhrif á líkamsstarfsemina. Dæmi: Kalk er nauðsynlegt fyrir vöxt og viðhald beina. Ginseng eykur þol. Omega-3 fitusýrur hafa jákvæð áhrif á liði.

 

Athugið að hér er eingöngu verið að fjalla um heilsufullyrðingar en ekki aðrar fullyrðingar. Hér má sjá glærur frá kynningu á reglugerðinni.  

Frekari upplýsingar veita Brynhildur Briem og Jónína Þ. Stefánsdóttir s. 5912000