Stök frétt

Í gærkvöldi, 7. júlí, var tilkynnt á 32. fundi heimsminjanefndar UNESCO, sem haldinn er í Quebec í Kanada, að Surtsey væri komin inn á heimsminjskrá sem einstakur staður náttúruminja á heimsmælikvarða. Það er mikill heiður og viðurkenning fyrir íslensku þjóðina, en jafnframt fylgir því mikil ábyrgð og skuldbinding um áframhaldandi verndun Surtseyjar í samræmi við samning UNESCO frá 1972 sem íslensk stjórnvöld undirrituðu árið 1995. Með samningnum viðurkenna ríki nauðsyn verndunar, þar sem það er talið skaða arfleifð allra þjóða heims ef einhver hluti hinnar menningarlegu eða náttúrulegu arfleifðar spillist eða hverfur.

Surtsey var friðuð árið 1965 meðan gosvirkni var enn í gangi og var friðunin bundin við eldfjallið ofansjávar. Í tengslum við tilnefningu Surtseyjar árið 2006 var friðlandið stækkað verulega. Í dag er friðlandið um 65 ferkílómetrar að stærð og nær yfir alla eldstöðina, ofansjávar og neðansjávar, þ.e. Surtsey, Jólnir, Syrtling og Surtlu, ásamt hafsvæðinu umhverfis. Með friðlýsingunni 1965 var tekið fyrir umferð manna út í eyna og gildir það enn þann dag í dag, nema með fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Var þetta gert fyrst og fremst til að forðast aðflutning lífvera af mannavöldum, til að vernda viðkvæma náttúru og til að stuðla þannig að því að eyjan fengi að þróast eftir lögmálum náttúrunnar án áhrifa eða afskipta mannsins.

Náttúrufræðistofnun Íslands hefur frá upphafi Surtseyjargossins séð um rannsóknir og reglubundna vöktun út í eynni í samvinnu við Hafrannsóknastofnun og Surtseyjarfélagið. Náttúrufræðistofnun tók saman upplýsingar um Surtsey að beiðni heimsminjanefndar Íslands og skrifaði skýrslu um sérstöðu eyjarinnar vegna tilnefningu hennar á heimsminjaskrá UNESCO.
Í tilnefningarskýrslu Surtseyjar kemur greinilega fram hversu miklar og fjölbreyttar vísindarannsóknir hafa farið fram út í Surtsey síðustu 45 árin. Þessar vísindarannsóknir hafa aukið þekkingu og skilning manna á náttúrulegri þróun nýrra landsvæða.

Margir aðilar komu að tilnefningu Surtseyjar á heimsminjaskrá og er þeim öllum þakkað fyrir framlag þeirra sem leiddi til þess að í dag er Surtsey á heimsminjaskrá UNESCO sem einstakur staður náttúruminja á heimsmælikvarða.