Stök frétt

reglugerð nr. 750/2008 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir að því er varðar efni, hefur verið gefin út af umhverfisráðuneytinu. Reglugerðin er sett með stoð í nýjum lögum um efni og efnablöndur nr. 45/2008 sem samþykkt voru á Alþingi í lok maí síðastliðnum.

Í tilefni af útgáfu þessarar nýju reglugerðar hefur Umhverfisstofnun, í samvinnu við Samtök atvinnulífsins, skipulagt kynningarráðstefnu um þessa nýju reglugerð þann 18. september næstkomandi. Ráðstefnan verður haldin á Radisson SAS Hótel Sögu og hefst kl. 9.00. Dagskrá ráðstefnunar tekur mið af skyldum fyrirtækja en hún getur einnig nýst öðrum sem vilja kynna sér þessa nýju reglugerð. Doris Thieman fulltrúi frá ECHA, Efnastofnun Evrópu, mun halda fyrirlestur á ráðstefnunni. Einnig gefst tími til fyrirspurna og umræðna.

Umrædd reglugerð innleiðir REACH, reglugerð Evrópusambandsins nr 1907/2006 um skráningu, mat, leyfisveitingu og takmarkanir, að því er varðar efni (Registration, Evaluation, Authorisation and Restriction of Chemicals). Hún leysir af hólmi í áföngum u.þ.b. tuttugu gildandi reglugerðir er varða framleiðslu, markaðssetningu, notkun og takmarkanir á efnum og efnablöndum og mun hafa víðtæk áhrif hér á landi þar sem gildisvið hennar er umfangsmeira en í eldri reglugerðum um efni og efnablöndur. Hér er ekki einungis verið að fjalla um eiturefni, hættuleg efni eða efni sem notuð eru í miklu magni í iðnaði, heldur einnig algeng efni og efnablöndur, s.s. hreinsiefni og málningu, sem og efni í algengum hlutum eins og raftækjum, fötum og húsgögnum. Almennt gildir að fyrirtæki sem framleiða, flytja inn, dreifa eða nota efni á hvaða formi sem er, munu á einn eða annan hátt þurfa að aðlaga sig að þessum nýju reglum. Það er því mjög mikilvægt að hlutaðeigandi aðilar kynni sér vel þessa nýju reglugerð, ef þeir hafa ekki þegar gert það. Í þessu sambandi má benda á hjálpartæki sem Efnastofnun Evrópu hefur sett upp á heimasíðu sinni sem kallast Leiðsögumaður. Með þessu hjálpartæki má á einfaldan og fljótlegan hátt, átta sig á skyldum sínum samkvæmt þessari nýju reglugerð. Ennfremur er bent á upplýsingasíðu Umhverfisstofnunar um REACH og hjá Efnastofnuna Evrópu.

Hægt er að skrá sig á ráðstefnuna eða óska eftir nánari upplýsingum með því að hafa samband við Sigríði Kristjánsdóttur hjá Umhverfisstofnun.