Stök frétt

Efnastofnunin hefur nýverið birt á heimasíðu sinni lista yfir þau efni sem höfðu verið forskráð fyrir 1. nóvember síðastliðinn. Alls höfðu yfir 900.000 forskráningar borist frá tæplega 15.000 fyrirtækjum. Á listanum, sem hægt er að hlaða niður af heimasíðu Efnastofnunarinnar, eru yfir 50.000 efni.

Samkvæmt upplýsingum frá Efnastofnuninni höfðu 7 fyrirtæki skráð á Íslandi forskráð alls um 50 efni og að auki höfðu 8 fyrirtæki til viðbótar skráð sig inn REACH-IT heimasíðu Efnastofnunarinnar með það að markmiði að skrá efni. Ætla má að töluvert fleiri fyrirtæki frá Íslandi þurfi að forskrá efni sín og því er vert að hvetja þau til að hafa hraðar hendur því nú eru einungis tæpar 3 vikur til stefnu, en forskráningu lýkur á miðnætti þann 1. desember næstkomandi.

Umhverfisstofnun hefur látið þýða spurningar og svör frá Efnastofnun Evrópu með það að markmiði að auðveldara verði fyrir fyrirtæki að átta sig á skyldum sínum samkvæmt REACH reglugerðinni. Spurningar þessar fjalla um hina ýmsu þætti REACH, þar á meðal: Hvað er REACH? Spurningar varðandi gildissvið REACH, skráningu efna, forskráningu, leyfisveitingu og margt fleira.

Upplýsingar og gögn um REACH á Íslandi.