Stök frétt

Sjálfboðaliðastarf Umhverfisstofnunar í samstarfi við BTCV hefur verið útnefnt meðal The world´s best working holidays af breska blaðinu The Sunday Times.

Greinarhöfundur blaðsins telur að fólk hafi í auknum mæli áhuga á innihaldsríkari ferðalögum sem gefa af sér og tekur saman þær ferðir sem standa upp úr. Meðal þeirra er sjálfboðaliðastarf í Skaftafelli . Sjálfboðaliðastarf í samstarfi við BTCV hélt upp á þrjátíu ára afmæli í fyrra og hefur vaxið og dafnað á undanförnum árum.

Meðal annarra verkefna sem nefnd eru í Sunday Times má nefna nashyrningavakt, blettatígursaðstoð og lífræn ræktun. Öll verkefnin eru metin eftir því hversu mikið fer í vasa umsjónarmanns verkefnisins og hversu mikið í verkefnið sjálft. Íslenska sjálfboðaliðastarfið fær hæstu einkunn hvað það varðar, 100% af fjármagninu fer beint í verkefnið.