Stök frétt

Forsíðumynd ársskýrslunnar eftir Gísla Dúa Hjörleifsson

Ársskýrsla Umhverfisstofnunar er komin út á rafrænu formi. Meðal þess sem fjallað er um í skýrslunni eru loftslagsmál, landganga hvítabjarna, loftgæði, mengunareftirlit, minkaveiðiátak, Surtsey, sjálfboðaliðastarf og Svansmerkið.

Fjöldi stuttra greina eru í skýrslunni sem gefur gott yfirlit fyrir helstu verkefni stofnunarinnar á árinu. Uppsetning skýrslunnar er með nýju sniði frá því sem verið hefur. Farið er yfir fleiri verkefni stofnunarinnar en áður, ítarlegri upplýsingar eru um starfsemi stofnunarinnar og á víð og dreif má finna fróðleiksmola um umhverfismál. Umhverfisstofnun hefur gengið í gegnum talsverðar breytingar á undanförnum árum og endurspeglar skýrslan afrakstur þeirrar vinnu.

Héðan í frá mun ársskýrsla Umhverfisstofnunar miðast út frá ársáætlun stofnunarinnar. Þannig mun skýrsla næsta árs haldast í hendur við fyrstu ársáætlun Umhverfisstofnunar fyrir árið 2009. Skýrslan í ár byggir á þeim markmiðagrunni sem Umhverfisstofnun starfar eftir.

Ásamt því að taka saman verk síðasta árs er einnig litið til framtíðar í skýrslunni og má í því sambandi vitna til ávarps forstjóra Umhverfisstofnunar, Kristínar Lindu Árnadóttur:

„Mikilvægt er að hafa skýra sýn til framtíðar og missa ekki sjónar á því sem mestu skiptir, sérstaklega á óvissutímum. Annars er hætta á því að meiri hagsmunum sé fórnað fyrir minni. Margar mikilvægar ákvarðanir sem snerta hagsmuni okkar, barna og barnabarna verða teknar á næstu mánuðum og árum. Umhverfisstofnun mun vinna að því að framtíð landsins verði byggð á grænum gildum með sjálfbærni að leiðarljósi. Til þess að svo verði er nauðsynlegt að miðla upplýsingum um umhverfismál og örva umræðu um þau meðal landsmanna og telur Umhverfisstofnun sig hafa hlutverki að gegna til að sú umræða verði upplýst og hnitmiðuð.”

Skýrslan var unnin að öllu leyti af starfsfólki Umhverfisstofnunar að undanskilinni prentuninni sem prentsmiðjan Hjá Guðjón Ó., sem er eina Svansmerkta prentsmiðjan á Íslandi, sá um.