Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir aflþynnuverksmiðju Becromal Iceland. Þar kemur fram að rekstraraðila er heimilt að framleiða allt að 2200 tonn eða sem nemur 10.800.000 m2 af aflþynnum fyrir rafmagnsþétta á ári hverju, með rafhúðun í 90 m3 kerjum. Framleiðslan fer fram í allt að 64 vélasamstæðum í 6000 m2 verksmiðjuhúsnæði í Krossanesi við Eyjafjörð. Þá er veitt heimild til pökkunar og reksturs verkstæðis og annarrar þjónustu við starfsemi auk heimildar til að framleiða ammóníumfosfat sem hliðarafurð úr vothreinsun.

Tillaga stofnunarinnar um starfsleyfi verksmiðjunnar var í auglýsingu á timabilinu 21. apríl til 16. júní 2009. Þrjár athugasemdir bárust stofnuninni. Nokkrar breytingar voru gerðar frá auglýstri tillögu meðal annars var sett í starfsleyfið krafa um að rekstraraðili komi í veg fyrir lyktarmengun í umhverfi verksmiðjunnar. Einnig voru gerðar leiðréttingar vegna breytinga á fyrirætlunum fyrirtækisins og brugðist við ábendingum um orðalag sem betur mætti fara.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 31. desember 2021.

Skjöl

Starfsleyfi Becromal

Athugasemdir og viðbrögð