Stök frétt

Umhverfisstofnun hélt nýverið borgarafund í Reykjanesbæ hvar kynnt var tillaga að starfsleyfi til reksturs kísliverksmiðju í Helguvík. Auk fulltrúa Umhverfisstofnunar sátu tveir fulltrúar Íslenska kísilfélagsins fyrir svörum að lokinni kynningu.

Umræður um umhverfisáhrif verksmiðjunnar, að kynningu lokinni, snerust mest um ryk og reyk. Fram kom að notuð verða afar hrein hráefni og að öll tækni, frágangur og hreinsivirki eigi að gera verksmiðjunni kleift að ná miklum árangri í því að koma í veg fyrir ótæpilega mengun af þessi tagi. Þá er ekki reiknað með að mengun af völdum brennisteinsdíoxíðs á hvert kílógramm af framleiðslu verði mikil miðað við sambærilegan rekstur.

Fulltrúar rekstraraðila bentu einnig á að lýsing á ráðstöfunum til að hindra mengun kæmi fram mati á umhverfisáhrifum sem fyrirtækið lét gera og birt var á síðasta ári. Einnig var spurst fyrir um umhverfisvöktun fyrirtækisins og kom fram að vöktunaráætlanir eru lagðar fram til Umhverfisstofnunar, sem fer yfir þær. Slíkar áætlanir eru ekki fast bundnar í starfsleyfum heldur taka þær mið af því hvaða upplýsingar um umhverfisáhrif eru í brennidepli hverju sinni. Í tilfelli Íslenska kísilfélagsins ehf. er líklegt að umhverfisvöktun verði sameiginleg með fyrirhuguðu álveri Norðuráls sem er að rísa á sama svæði.