Stök frétt

Talsverðar gróðurskemmdir urðu í Hvammahrauni í Reykjanesfólkvangi vegna bruna. Starfsmenn á vegum Umhverfisstofnunar og umhverfissráðuneytisins fóru á staðinn í gær og könnuðu aðstæður.

Teknir voru GPS punktar af brennda svæðinu sem mælist um hálfur hektari. Eins og sjá má af meðfylgjandi myndbandi og myndum er sárið áberandi í landslaginu. Ljóst er að langt er þar til það grói heilt. Gangan að svæðinu tók um eina og hálfa klukkustund og óhætt að taka undir það að aðstæður til slökkvistarfs hafi verið erfiðar. Þær tegundir sem brunnu voru fyrst og fremst mosaþemba og hraungambri.

Umhverfisstofnun vill beina því til þeirra sem ferðast um landið að gæta varúðar við meðferð elds, sér í lagi þar sem gróður er þurr. Lítið þarf til að eldur kvikni þegar gróður er þurr og því mikilvægt að ganga vel frá t.d. grillum og ekki henda logandi sígarettum frá sér eða öðru sem getur kviknað í út frá. Umhverfisstofnun áréttar að vaxtartími gróðurs á Íslandi er stuttur og því hvert gróið svæði mikilvægt samanber sandfok undanfarinna daga.

Gömul Svalaferna fannst á leiðinni sem hefur legið í hrauninu frá því 1992 og eins og sjá má af meðfylgjandi mynd er nokkuð langt í að hún brotni niður. Fernan er holl áminning um að taka allt með aftur til byggða og flokka til endurvinnslu.

Mikið er um akstur utan vega á svæði og því tilefni til að minna á að slíkur akstur er bannaður. Hjólför mynda ör í landslaginu og skemma viðkvæman gróður.

Myndir - Ólafur A. Jónsson og Kristinn Már Ársælsson