Stök frétt

Nýlega bauð Þjóðgarðurinn Snæfellsjökull upp á gönguferð þar sem gengið var í fótspor Jóhannesar Helgasonar skurðlistamanns frá Hellnum. Ferðin tókst afar vel og komu nokkrir ættingja Jóhannesar sérstaklega frá Reykjavík til að fara í gönguna. Gengið var frá Móðulæk að dánarstað Jóhannesar, sem er í hrauninu nokkru ofan við Hellissand, og síðan áfram niður Hraunskarð.

Jóhannes var fæddur árið 1887 í Gíslabæ á Hellnum, einn af 16 systkinum. Faðir hans var mikill hagleiksmaður en Jóhannes fór til náms í Reykjavík árið 1914 þar sem hann lærði tréskurð hjá Stefáni Eiríkssyni tréskurðameistara. Þess má geta að Ríkharður Jónsson nam einnig hjá Stefáni. Jóhannes fékk styrk til frekara listnáms erlendis, fyrstur Íslendinga, og árið 1920 hugðist hann láta þann draum ræstast. Áður en utan var haldið var ætlunin að kveðja ættingja og vini á Hellissandi. Hann hélt gangandi frá Hellnum þann 20. janúar en örmagnaðist á leiðinni í vonsku veðri. Samferðamaður hans og tilvonandi mágur, Friðjón Hjartarson þá 15 ára gamall, komst til byggða við illan leik. Margir fagrir munir eru til eftir Jóhannes og er ramminn utan um altaristöfluna í Hellnakirkju þeirra á meðal.

Að neðan gefur að líta viðhafnargestabók og kistil er Jóhannes Helgason gerði.