Stök frétt

Í dag 16. september er Dagur ósonlagsins. Í tilefni dagsins fagnar Umhverfisstofnun Sameinuðu þjóðanna því að Montrealbókunin um verndun ósonlagsins er fyrsti alþjóðasamningur sem gerður hefur verið á sviði umhverfismála og öll 196 ríki heims hafa staðfest. Síðasta ríkið til að fullgilda samninginn er Austur Tímor, en það varð sjálfstætt ríki 2002.

Forsætisráðherra Austur Tímor, hr. Xanana Gusmao tilkynnti nýlega að ríkið hefði fullgilt Montrealbókunina. Hann tilkynnti að þjóð hans væri mjög stolt af því að hafa tekið þátt í að berjast gegn eyðingu ósonlagsins og taka þátt í endurheimt þess og sporna við loftlagsbreytingum.

Ósonlagið verndar jörðina gegn hættulegum útfjólubláum geislum sólar sem veldur húðkrabbameini, augnsjúkdómum og bælir ónæmiskerfi líkamans. Montrealbókunin bannar framleiðslu og notkun á klórflúorkolefnum og halónum, sem jafnframt eru öflugar gróðurhúsalofttegundir.

Montrealbókunin var gerð 1987 við Vínarsáttmálann um verndun ósonlagsins frá 1985 og er því 22 ár síðan bindandi samkomulag var gert til varnar rýrnun ósonlagsins. Á þessum ríflega 20 árum hefur notkun ósoneyðandi efna minnkað um 95% og bannað hefur verið að framleiða og nota upp undir 100 efni og efnablöndur sem skaða ósonlagið. Rannsóknir vísindamanna sýna að ósonlagið er að jafna sig, og mun ná sama þéttleika árið 2075 og það hafði 1980. Ennþá er mikið verk óunnið þar sem ósoneyðandi efni eru enn í notkun, bæði á vesturlöndum og í þróunarlöndunum, og eins berast þau út í andrúmsloftið frá gömlum búnaði og vörum sem ekki hefur verið fargað á ábyrgan hátt.

Bæði ósoneyðandi efni og gróðurhúsalofttegundir valda loftlagsbreytingum, og talið er að frá 1990 hafi bann við notkun og framleiðslu ósoneyðandi efna seinkað hlýnun jarðar um allt að 12 ár. Alþjóðleg samvinna vegna klórflúorkolefna og annarra ósoneyðandi efna sýnir að hægt er að minnka þá hættu sem jörðinni stafar af eyðingu ósonlagsins og loftlagsbreytingum vegna tilbúinna efna og efnasambanda.

Skilaboð aðalritara Sameinuðu Þjóðanna

Upplýsingar um ósonlagið