Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Sá hluti Skerjarfjarðarsvæðisins sem áformað var að friðlýsa amkvæmt náttúruverndaráætlun 2004-2008 og liggur innan og út af lögsagnarumdæmi Garðabæjar hefur nú verið friðlýstur.

Skerjafjörður verður friðlýstur sem búsvæði og nær friðlýsing til fjöru og grunnsævis alls 427 hektara á sjó og landi. Nær sú friðlýsing einnig til fjöru og grunnsævis undan Garðaholti. Skerjafjörður er mikilvægur viðkomustaður farfugla og hefur alþjóðlegt verndargildi vegna fuglategunda eins og rauðbrystings og margæsar. Markmiðið með friðlýsingunni er að vernda lífríki og að vernda útivistar- og fræðslugildi svæðisins.

Einnig hefur annað svæði innan Garðabæjar, Gálgahraun, verið friðlýst sem friðland alls 108 hektarar og er umrætt svæði nyrsti hluti svokallaðra Búrfellshrauna sem runnu frá eldstöðinni Búrfelli fyrir rúmum 7000 árum. Verndargildi Gálgahrauns liggur ekki síst í því hversu ósnortið það er sem þýðir að hraunið er að mestu eins og það var þegar það rann. Forsendur friðlýsingarinnar eru jarðmyndanir, gróðurfar, fuglalíf og menningarminjar en í hrauninu eru t.a.m. hin forna Fógetagata og Gálgaklettur sem er forn aftökustaður sem hraunið dregur nafn sitt af.

Undirritun friðlýsinganna fór fram þriðjudaginn 6. október 2009. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra undirritaði auglýsingu um friðlýsingu svæðanna og Gunnar Einarsson, bæjarstjóri Garðabæjar yfirlýsingu bæjarstjórnar. Á sama tíma undirrituðu forstjóri Umhverfisstofnunar og bæjarstjóri Garðabæjar samninga um umsjón Garðabæjar með báðum svæðunum auk samnings um umsjón friðlandsins Vífilsstaðavatns og staðfesti ráðherra samningana við sama tækifæri.