Stök frétt

Stefna um vistvæn innkaup var samþykkt af ríkisstjórn Íslands þann 13. mars 2009. Markmið stefnunnar er að minnka neikvæð umhverfisáhrif og þar með umhverfiskostnað vegna opinberra innkaupa. Einnig er þess vænst að þessi stefna muni leiða til þess að samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja batni þar sem þau muni þá þurfa að bjóða upp á umhverfisvænni valkosti en áður. Innkaupastefnan muni þannig leiða af sér nýsköpun. Vistvæn innkaup geta minnkað kostnað og aukið gæði vöru og þjónustu, samhliða því að taka umhverfiskostnað með í reikninginn. Innkaupastefna hins opinbera mun þannig að öllum líkindum auka framboð á vistvænum vörum og þjónustu sem getur nýst öllu samfélaginu.

Umhverfisstofnun mun innleiða vistvæna innkaupastefnu og verða fyrirmynd fyrir aðrar stofnanir og fyrirtæki. Stofnunin mun bjóða öðrum stofnunum aðstoð við innleiðingu stefnunnar. Unnið verður í samvinnu við Ríkiskaup vegna þróunar viðmiða í rammasamninga. Loks mun Umhverfisstofnun miðla upplýsingum og bjóða upp á fræðslu til fyrirtækja.

Kristín Linda ræddi um að upplýsingagjöf og samstarf væru lykilatriði í því ferli sem felst í vistvænum innkaupum og grænni nýsköpun. Fyrirtæki þurfa fljótt og örugglega að fá upplýsingar um breytingar á kröfum opinberra innkaupaðila. Þeim þarf síðan að gefa tækifæri til að svara breyttum forsendum og þróa nýjar lausnir. Mikilvæg forsenda árangurs er að um þetta sé gott samstarf milli opinberra aðila og einkafyrirtækja. Stjórnvöld þurfa styðja við þróun nýrra lausna. Miðlun upplýsinga og fræðsla er lykilatriði til þess að allir hafi upplýsingar og skilning á breyttum kröfum og verkferlum. Samstarf við atvinnulífið er nauðsynlegt til þess að koma upplýsingum til skila, ekki síst til smærri fyrirtækja.

Svanurinn, norræna umhverfismerkið mun leika stórt hlutverk í hinu nýja vistvæna umhverfi. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Svanurinn gerir strangar kröfur um ótal þætti, bæði varðandi umhverfisþætti og heilsu fólks. Svansmerking er tækifæri fyrir öll fyrirtæki, hvort sem þau eru þegar leiðandi fyrirtæki eða græn sprotafyrirtæki. Mögulegt er að votta 66 vöru- og þjónustuflokka. Ávinningur fyrirtækja af Svansvottun er margvíslegur, s.s. bætt frammistaða í umhverfismálum, rekstrarsparnaður, bætt ímynd og fleira.

Áhugi á Svansmerkingu hefur aukist mikið að undanförnu og hefur Umhverfisstofnun nú til vinnslu fjölmargar umsóknir, sem borist hafa á undanförnum mánuðum. Umhverfisstofnun setti sér það markmið að þrefalda fjölda leyfishafa á Íslandi og líklegt er að það markmið náist, og gott betur, á næstu mánuðum.

Kristín Linda lagði áherslu á að ná mætti fram sparnaði í ríkisrekstri með grænum áherslum og grænni nýsköpun. Til þess að svo megi verða þurfi samvinnu, fræðslu og nýsköpun.

Hvað eru vistvæn innkaup?

Að velja þá vöru eða þjónustu sem er síður skaðleg umhverfinu eða heilsu manna og ber sama eða lægri líftímakostnað en aðrar vörur og þjónusta sem uppfylla sömu þörf.