Stök frétt

Föstudaginn 13. nóvember var opnuð ljóðasýningin Ljóð í náttúru í Þjóðgarðinum Snæfellsjökli og hjá Sjávarrannsóknarsetrinu Vör í Ólafsvík. Börn í Snæfellsbæ tengdu saman menningu og náttúru, ortu ljóð um hafið og lásu upp ljóð út við vita. Sannarlega ljós í myrkrinu! Hjá Þjóðgarðinum voru sett skilti með ljóðum á þrjá vita sem eru innan Þjóðgarðsins.

Cýrus Danelíusson afhjúpaði skiltin við Öndverðarnesvita en Cýrus þekkir Öndverðarnes vel og dvaldi þar um hríð. Börn úr 4. bekk Grunnskóla Snæfellsbæjar lásu upp ljóðin. Þess má til gamans geta að þegar Cýrus var á þeirra aldri hljóp hann tvisvar í viku út á Öndverðarnes frá Hellissandi til að sækja mjólk fyrir fjölskylduna!

Í tilefni ljóðasýningarinnar efndi Vör til ljóðasamkeppni meðal nemenda Grunnskólans og var þemað sjór og sjávarlíf. Alls bárust 37 ljóð og þriggja manna dómnefnd valdi 8 úrvalsljóð og þar af tvö framúrskarandi. Nemendur lásu upp ljóð sín við opnun sýningarinnar í Vör við góðar undirtektir gesta. Ljóðin 8 verða hluti af sýningu Varar og eiga nemendur þakkir skyldar fyrir frábæra þátttöku í ljóðasamkeppninni og hrós fyrir sköpunargáfu sína. Aðstandendur sýningarinnar þakka öllum sem komu og skemmtu sér með þeim við opnunina en jafnframt gefst þeim sem ekki komust, tækifæri til að njóta ljóðanna sem börnin ortu og birtast þau hér með.

Verkefnið er styrkt af Menningarráði VesturlandsMenningarráð Vesturlands

 

Ljóðin tvö sem bera þóttu af voru:

Hrár fiskur, steiktur fiskur,

soðinn fiskur, lifandi fiskur,

fiskur í raspi

og fiskur í sjó.

Sigurður Reynir Rúnarsson, 6. bekk

 

 

Hafið mikla

Sjórinn fagri,

glampar,

þegar sólarljósið

kemur.

Lýsir yfir hafið með

fögrum sólargeislum.

Hvíti mávurinn flýgur yfir

sjó og strendur,

í hafdjúpinu mikla eru

ótal stórir fiskar.

         Azra Crnac, 7.bekk

Átta ung skáld

 

 Önnur sex úrvals ljóð, í þeirri röð sem höfundar lásu þau upp:

 

 
Sjórinn

Hann er blár

Hann er kaldur

Hann er saltur

Hann er grunnur

Hann er allsstaðar

Við hoppum í honum

Við syndum í honum

Fiskarnir lifa í honum

Skipin sigla á honum

 

Þetta, þetta er sjórinn.

Silja Ólafsdóttir, 4. bekk.

 

Hafið

Hafið blátt er hátt,

steinar liggja í fjöru djúpsins.

Fiskarnir eru með stór augu,

feitir sumir mjóir.

Sjófuglar borða fimm fiska og við fáum afganginn.

Elmar Ingi Sigurðsson, 5.b.

  

Sjórinn

Sjórinn er fagur,

Fagur eins og sólarljósið.

Sjórinn er grimmur eins og kölski.

Sjórinn sýnir tákn,

Tákn eins og ást.

Sjórinn er djúpur,

Djúpur eins og tilfinning

Ólöf Gígja Hallgrímsdóttir, 7. bekk

  

Lúðan

Lúðan er lúðinn í hafinu en menn eru bara menn.

Sumir menn eru sjómenn.

Skötuselurinn er blanda af

skötu og sel.

Steinbíturinn steininn étur,

fallegt ljós á kolli hans lokkar að bráð hans.

Birkir Snær Barkarson, 5.bekk

 

Án titils

Skatan er svo glöð,

því að hún er svo flöt.

Þarna er smokkur sem rímar við kokkur.

Þarna er lúða sem er sú prúða.

Hvar er krabbinn?

Hann fór á labbinn.

Þarna er ýsa, er hún ekki skvísa?

Hvað er þorskur? Er það froskur?

Sigurberg Óskar Rúnason, 5. bekk

  

Fiskur í sjó 

Hver býr í sjónum

Hlustið nú vel

Þar búa fiskar og höfrungastél

Fiskarnir synda og synda í hóp

Þannig er fiskur í sjó.

Júlía Karen Fannarsdóttir 5. bekk