Stök frétt

Í gær urðu tímamót í loftslagsmálum hér á landi þegar ráðherraráð Evrópusambandsins samþykkti að ganga til samninga við Ísland um fulla þátttöku Íslands í aðgerðum ESB til að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda eftir 2012. Með þessari ákvörðun hefst formlegt samningaferli milli Íslands og ESB um samkomulag sem ætlunin er að fullgilda samhliða nýjum alþjóðlegum samningi á sviði loftslagsmála. Samkomulagið mun fela í sér að Ísland tekst á hendur sömu skuldbindingar um magntakmarkanir á losun gróðurhúsalofttegunda og ESB samkvæmt nýjum alþjóðasamningi, en ESB hefur lýst yfir vilja til að draga úr losun um að minnsta kosti 20% fyrir árið 2020 miðað við losun ársins 1990. Þá mun Ísland taka þátt í aðgerðum ESB á sviði loftslagsmála eftir 2012 sem meðal annars er kveðið á um í svokölluðum orku- og loftslagspakka sambandsins. Má þar einkum nefna að flug og stóriðja mun heyra undir viðskiptakerfi ESB með losunarheimildir (emissions trading system) og aðrir geirar hér á landi munu lúta losunarmörkum sem fram koma í ákvörðun um svonefnda byrðadreifingu (effort sharing) milli ríkja sambandsins.

Frétt umhverfisráðuneytisins