Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Carbon Recycling International ehf. og fyrirtækinu þar með heimilað að reka verksmiðju þar sem tilraun er gerð til að framleiða metanól úr koldíoxíði. Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi fyrir verksmiðjuna á tímabilinu 23. október til og með 18. desember 2009 og bárust tvær athugasemdir.

Athugasemdirnar höfðu talsverð áhrif á skilyrði starfsleyfisins. Skipulagsstofnun benti á að hún hefði hefði fengið tilkynningu um að verksmiðjan væri tilraunaverksmiðja í skilningi laga um mat á umhverfisáhrifum og að það hefði þær afleiðingar að Umhverfisstofnun mætti ekki leyfa framleiðslu metanóls lengur en í tvö ár án þess að fram færi mat á umhverfisáhrifum. Umhverfisstofnun féllst á þessa athugasemd. Þá kom fram í athugasemd Heilbrigðiseftirlits Suðurnesja að rétt væri að gera frekari kröfur um hreinsum fráveitu og féllst Umhverfisstofnun einnig á þetta sjónarmið. Loks voru felldar út greinar sem ekki er þörf á vegna þess að gildistími hefur verið styttur frá auglýstum texta.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 1.febrúar 2018.