Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Norðurskel ehf. til að rækta krækling og til lirfusöfnunar í Eyjafirði. Starfsleyfið nær til fjögurra skilgreindra svæða í Eyjafirðinum sem nánar koma fram í meðfylgjandi kortum í viðaukum starfsleyfisins ásamt hnitum svæðanna. Staðirnir eru við sunnanverða Hrísey, í Reitsvík og við Rauðuvík. Á fjórða svæðinu, frá Dagverðareyri og að Brávöllum fer fram lirfusöfnun.

Umhverfisstofnun auglýsti tillögu að starfsleyfi fyrir Norðurskel ehf. á tímabilinu 27. nóvember 2009 til 22. janúar 2010.

Þrjár athugasemdir bárust. Á meðal athugasemdanna var ábending frá Heilbrigðiseftirliti Norðurlands eystra um að svæðið við Rauðuvík væri nærri svokölluðum Arnarnesstrýtum, en þær eru friðað náttúruvætti samkvæmt auglýsingu umhverfisráðuneytisins nr. 510/2007, sem hefur stoð í 2. tölulið 53. gr. og 54. gr. laga um náttúruvernd, nr. 44/1999.

Við nánari athugun kom í ljós að svæðið sem auglýst var, náði inn fyrir friðlýsta svæðið og var því svæðið minnkað í starfsleyfinu og rekstraraðila gert að færa bauju sem afmarkar ræktunarsvæðið.

Starfsleyfið öðlast þegar gildi og gildir til 1. maí 2022.