Stök frétt

Umhverfisstofnun tekur undir ábendingar Ríkisendurskoðunar sem fram koma í skýrslu um málefni sorpbrennslna.

Gerðar voru umfangsmiklar breytingar á Umhverfisstofnun á fyrri hluta árs 2008 og í kjölfarið mörkuð stefna til framtíðar. Skipuriti stofnunarinnar var breytt og nýir stjórnendur komu inn. Farið var yfir verkefni stofnunarinnar, eldri stefnur endurskoðaðar og í kjölfarið gerðar margvíslegar breytingar á starfseminni.

Í ljós kom meðal annars að bæta þyrfti eftirlit stofnunarinnar og þá sérstaklega eftirfylgni og beitingu þvingunarúrræða. Fyrir 2008 heyrði það til undantekninga að þvingunarúrræðum stofnunarinnar hafi verið beitt, eins og Ríkisendurskoðun bendir á, en frá árinu 2009 hefur þeim fjölgað hratt. Í tilkynningu frá Ríkisendurskoðun segir að „Umhverfisstofnun hafi að undanförnu breytt starfsháttum sínum og eflt eftirlit sitt með hvers kyns mengandi starfsemi.“

Einnig var ljóst að upplýsingamiðlun var ábótavant og þörf á því að upplýsingar væru aðgengilegar almenningi og tryggt að mikilvægum upplýsingum yrði komið á framfæri opinberlega. Á nýju vefsvæði stofnunarinnar sem opnaði í mars síðastliðnum eru allar upplýsingar um eftirlit aðgengilegar og tryggt í verkferlum að upplýsingum um brot á starfsleyfum sé komið á framfæri opinberlega.

Smátt og smátt hefur stofnunin verið að bæta þessi mál en, eins og aðrir, þurft að skera niður í málaflokkum sem bjuggu við þröngan kost fyrir hrun. Af þeim sökum hefur það tekið lengri tíma að koma málum í réttan farveg en vonir stóðu til og mun úrbótaferlið taka nokkurn tíma enn. Umhverfismál hafa vaxið gríðarlega á undanförnum áratug og sífellt gerðar meiri kröfur samhliða aukinni þekkingu á áhrifum mannsins á umhverfi sitt.

Stofnunin lagði til við umhverfisráðuneytið í janúar síðastliðnum að eldri sorpbrennslum yrði gert að uppfylla strangari reglur sem gilda um nýjar sorpbrennslur. Gefinn yrði tveggja ára aðlögunartími að hámarki til þess. Einnig ákvað stofnunin að mæla díoxín í jarðvegi í nágrenni við mögulegar uppsprettur, þar á meðal sorpbrennslur, iðnað og áramótabrennur. Niðurstöður úr þeim rannsóknum berast í sumar og verða teknar ákvarðanir um frekari aðgerðir þegar þær liggja fyrir. Stofnunin hefur lýst því yfir að hún muni að jafnaði ekki mæla með undanþágum frá umhverfiskröfum sem koma í gegnum EES-samstarfið.

Meðal þess sem Umhverfisstofnun mun halda áfram að gera á næstu misserum til þess að styrkja eftirlit og upplýsingamiðlun má nefna:

  • Innleiðingu ISO 9001 gæðakerfis, sem tryggir utanumhald um verkefni stofnunarinnar, lýkur á næstu mánuðum.
  • Stofnunin mun beita viðeigandi þvingunarúrræðum en slíkum ákvörðunum hefur fjölgað mikið frá árinu 2009.
  • Lagt verður til við umhverfisráðuneytið að stofnunin fái heimild til að beita stjórnvaldssektum.
  • Gerð verður erlend úttekt á eftirliti stofnunarinnar á vegum IMPEL (Implementation of Environmental Law).
  • Starfsmenn í eftirliti fái endurmenntun og starfsþjálfun á vegum IMPEL.
  • Auglýst hefur verið eftir tveimur nýjum starfsmönnum í eftirlitsverkefni.
  • Fjölgað verður verulega óundirbúnum eftirlitsferðum.
  • Nýr vefur var opnaður í mars með upplýsingum um öll þau fyrirtæki sem stofnunin hefur eftirlit með. Þar verða birtar allar eftirlitsskýrslur, upplýsingar um þvingunarúrræði og grænt bókhald þannig að hver sem er geti fylgst með stöðu mála.
  • Þverfagleg teymi innan stofnunarinnar, sem voru stofnuð 2009, verði efld enn frekar.
  • Óskað verður í ríkara mæli við umhverfisráðuneytið eftir gjaldtökumheimildum til þess að standa undir verkefnum.

Allar þær úrbætur sem Umhverfisstofnun tiltekur í skýrslu Ríkisendurskoðunar eru verkefni sem þegar hafði verið ákveðið að ráðast í til þess að styrkja starfsemi stofnunarinnar á grundvelli nýrrar stefnu frá árinu 2008. Stofnunin lítur á ábendingar Ríkisendurskoðunar sem stuðning við þá stefnu og hvatningu til þess að ljúka sem fyrst þeim umbótum sem unnið hefur verið að. Til þess að svo megi verða þarf stofnuninni að vera búinn sambærilegur rekstrargrundvöllur og öðrum eftirlitsstofnunum, t.d. þeim er hafa eftirlit með fjármálastofnunum, eins og Ríkisendurskoðun bendir á. Stofnunin fagnar því að umhverfismál séu meira til umfjöllunar en áður og því aðhaldi sem opinni umræðu fylgir. Markmið Umhverfisstofnunar er að vernda hag almennings og umhverfisins.