Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur gefið út starfsleyfi fyrir Þórodd ehf. þar sem rekstraraðila er heimilt að framleiða allt að 3000 tonn af laxi á ári í sjókvíum í Patreksfirði og í Tálknafirði þannig að framleidd verði allt að 1500 tonn í hvorum firði. Þá er heimilt allt að 398 tonna þorskeldi á einu svæði við Tálknafjörð en þar er um að ræða eldri starfsemi. Samanlögð heimild til fiskeldis er því 3398 tonn á ári.

Tillaga að starfsleyfi var auglýst opinberlega á tímabilinu 14. desember 2010 til 8. febrúar 2011 og lá hún frammi á skrifstofu Vesturbyggðar á sama tíma. Tillagan var, auk opinberrar auglýsingar, sérstaklega send til umsagnar hjá völdum aðilum og lögbundnum umsagnaraðilum. Þá hélt Umhverfisstofnun opinn kynningarfund þann 31. janúar s.l. í Sjóræningjahúsinu á Patreksfirði.

Fjórir aðilar sendu inn athugasemdir um tillöguna. Tálknafjarðarhreppur sendi inn bókun sem samþykkt hafði verið samhljóða á fundi hreppsnefndar þess efnis að hreppurinn myndi ekki senda inn umsögn.

Skipulagsstofnun benti á að ekki væri kveðið ítarlega á um ráðstafanir vegna fisks sem sleppur úr kvíum. Umhverfisstofnun svaraði athugasemdinni þannig að heimildir stofnunarinnar til afskipta af málaflokknum væru takmarkaðar við mengunarmál. Þó væri hægt að koma dálítið inn á málið út frá sjórnarhorni mengunarmála og var því ákveðið að breyta lítillega texta leyfisins.

Athugasemd kom frá eigendum Sveinseyrar, sem er jörð við Tálknafjörð. Eigendur töldu að hagsmunum sínum væri ógnað vegna staðsetningar eldissvæðis skammt frá jörðinni. Eigendur jarðarinnar bentu á að þeir hafi unnið að útflutningi á vatni í stórum tankskipum og töldu að staðsetning kvíanna ógnaði þessum áformum, þar á meðal áformum um að útbúa sérstakt leguból út af Sveinseyrarhlíðinni. Þá bentu jarðeigendurnir einnig á að á Sveinseyrarodda hafi á löngum tíma verið byggt upp æðarvarp. Stórtækt fiskeldi í kvíum á firðinum geti haft áhrif á lífríki fjarðarins og þar með á æti æðarfuglsins enda haldi fuglinn sig með ströndinni á vorin.

Varðandi fyrra atriði kannaði Umhverfisstofnun lauslega sjónarmið Siglingastofnunar Íslands. Að fengnu áliti hennar og með tilliti til þess að skipulagsvald er ekki fyrir hendi utan netlaga og þess að hugsanlegt er að framkvæmd á borð við leguból sé háð mati á umhverfisáhrifum, taldi stofnunin að sér væri ekki fært að hafna hnitsetningu sem kom fram í umsókn Þórodds ehf. Hins vegar ákvað Umhverfisstofnun að þótt hún teldi litlar líkur á að athuguðu máli að fiskeldið hefði áhrif á æðarvarpið, að umhverfisvöktun vegna mögulegra áhrifa yrði sett upp til frekara öryggis. Hún yrði þá kostuð af rekstraraðila fiskeldisins.

Þá barst ábending frá sjómanni á Patreksfirði sem benti á að útfæra mætti umhverfisvöktun þannig að tekið yrði tillit til fiskveiða og hrygningar þorsks í firðinum. Rekstraraðili tók vel í þessar hugmyndir og benti jafnframt á að eldiskvíar væru ekki líklegar til að þrengja mikið að fiskveiðum og féllst Umhverfisstofnun á fram komin sjónarmið.

Smávægilegar breytingar aðrar voru gerðar, meðal annars voru eldissvæði alfarið færð út fyrir netlög enda féll rekstraraðili frá því að óska eftir starfsemi innan netlaga.

Tengd skjöl