Stök frétt

Loftgæði á Íslandi eru almennt talin góð en við ákveðnar veðurfarslegar aðstæður geta loftmengunarefni safnast upp og farið yfir heilsuverndarmörk. Loftmengun á sér mismunandi uppsprettur, ýmist frá iðnaði, bílaumferð og/eða jarðvegsfoki. Sú mengun sem kemur einna mest frá umferð er brennisteinsdíoxíð (SO2 og SOx), kolmónoxíð (CO), koldíoxíð (CO2) og köfnunarefnisoxíð (NO, NO2 og NOx). Ósón (O3) myndast þegar köfnunarefnisoxíð efni hvarfast með hjálp annara efna og sólargeisla og er því óbeint flokkuð sem umferðarmengun. Svifryk (PM10 eða PM2,5) er einnig talin sem umferðarmengun en svifryk getur verið í útblæstri bíla vegna ófullkomins bruna og verið malbiksagnir vegna slits á umferðargötum. Einnig getur svifryksmengunar orðið vart þegar vindar blása jarðvegsefnum ýmist frá nærliggjandi umhverfi (malarplön, byggingarsvæði o.s.frv.) eða umhverfi lengra að og t.d. hefur svifryksmengun hækkað einhverja daga á höfuðborgarsvæðinu vegna öskufoks frá svæði í kringum Eyjafjallajökul eftir gosið.

Loftmengun helst mikið í hendur við þróun bílaumferðar og síðustu áratugi hefur loftmengun aukist vegna aukinnar bílaumferðar. Þar sem umferð er mikil, t.d. í Reykjavík á umferðaræðum og verslunargötum, getur styrkur loftmengunar mælst nokkuð hár. Meðalstyrkur köfnunarefnisdíoxíðs í Reykjavík er sjaldan meiri en 20 µg/m3 á sólarhring en hann getur átt það til að fara yfir viðmiðunarmörkin sem eru 75 µg/m3. Á dögum sem svifryk hefur farið yfir viðmiðunarmörkin (50 µg/m3) er þá aðallega að ræða malbik frá vegum en upp á síðkastið hefur það einnig verið vegna öskufoks frá suðurlandi. Á Akureyri er oft styrkur svifryks hærri en í Reykjavík og er talið að það sé einna helst vegna söndunnar gatna yfir vetrartímann og vegna jarðvegsfoks frá hálendinu í kringum Akureyri.

Tilskipanir Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um loftgæði (Tilskipun 2008/50/EB) og þungmálma í lofti (Tilskipun 2004/107/EB) eru í endurskoðun og leitar framkvæmdastjórnin nú eftir áliti almennings á núverandi tilskipunum og á því hvernig best bæri að draga úr loftmengun og bæta loftgæði. Sjónarmið almennings gæti haft áhrif á tilskipanir Evrópusambandsins og þar með löggjöf hér á landi vegna EES samningsins.

Hægt er að koma með ábendingar og tillögur af því sem betur mætti fara í þessum tilskipunum með því að svara könnun Evrópusambandsins og smella hér. Frestur til að skila inn ábendingum er til 30. september 2011.