Stök frétt

Í tilefni af 40 ára afmæli Ramsarsamningsins verður boðið upp á fræðslu og náttúruskoðun í Vatnsmýrinni og við Mývatn laugardaginn 13. ágúst. Gengið verður af stað frá Norræna húsinu í Vatnsmýrinnu kl. 13 og frá bílastæðinu við Belgjarfjall við Mývatn kl. 14. Fólk er hvatt til þess að koma og kynna sér mikilvægi votlendis og hið fjölbreytta lífríki votlendissvæðanna. Sérfræðingar frá Náttúrufræðistofnun ÍslandsNáttúrurannsóknarstöðinni við Mývatn og Umhverfisstofnun hafa umsjón með náttúruskoðuninni og svara spurningum.

Ramsar svæðin á Íslandi

Votlendi hafa margvíslegt gildi og má skipta mikilvægi þeirra upp í þrjá flokka.

  • Vatnsfræðilegt gildi: Í miklum rigningum taka votlendissvæði til sín vatn en miðla því frá sér í þurrkatíð. Þannig viðhalda votlendissvæði jöfnu rennsli í ám og lækjum sem er mikilvægt fyrir þær lífverur sem þar búa.
  • Næringarfræðilegt gildi: Mýrar geyma verulegt magn kolefna sem verða til við niðurbrot jurtaleifa. Breytingar á t.d. hitastigi og vatnsborði mýra geta valdið aukinni losun kolefnis sem getur haft áhrif á heimsvísu.
  • Vistfræðilegt gildi: Votlendi er mikilvægt búsvæði fugla og plantna og fjölmargar tegundir byggja tilvist sína á því. Votlendi getur þannig aukið verulega líffræðilega fjölbreytni viðkomandi landsvæðis.

Mikið hefur verið gengið á votlendi Íslands á undanförnum áratugum með framræslu sem að hluta til var styrkt úr opinberum sjóðum. Nú er staðan þannig að tiltölulega lítið er eftir af óröskuðu votlendi á láglendi og sem dæmi um það má nefna að aðeins 3% alls votlendis á Suðurlandi er eftir óraskað og aðeins 18% á Vesturlandi.

Til að stemma stigu við þessari þróun hafa Íslendingar m.a. samþykkt Ramsar samninginn. Hann dregur nafn sitt af borginni Ramsar í Íran þar sem hann var fyrst samþykktur árið 1971. Hann var fyrsti alþjóðlegi samningurinn sem var gerður sem fjallar um vernd og nýtingu ákveðinna búsvæða eða vistkerfa. Kveikjan að gerð samningsins voru áhyggjur manna af fækkun í mörgum stofnum anda og gæsa og annarra votlendisfugla og stöðugur ágangur á búsvæði þeirra, en yfirlýst markmið samningsins er að stuðla að verndun og skynsamlegri nýtingu votlendissvæða í heiminum, sérstaklega sem lífsvæði fyrir fugla. Í mörg ár beindist athyglin fyrst og fremst að því að vernda votlendissvæði, en votlendi er miklu meira en bara búsvæði fugla og á síðustu árum hefur áhugi aukist á öðrum verðmætum votlendissvæða, t.d. útivistargildi.

Aðaláherslan í því starfi sem fer fram undir hatti Ramsarsamningsins hefur verið að vernda þau votlendissvæði sem eftir eru í heiminum, en þeim hefur farið fækkandi á undanförnum áratugum. Samtímis hefur mönnum þó orðið ljóst hversu mikla þýðingu votlendi hefur fyrir afkomu manna. Í seinni tíð hefur því verið lögð meiri áhersla á fræðslu um hvernig hægt er að nýta votlendissvæði án þess að raska þeim. Lykilhugtök Ramsarsamningsins eru verndun og skynsamleg nýting.

Samningurinn gekk í gildi á Íslandi árið 1978 og þar með skuldbundu Íslendingar sig til að lúta ákvæðum hans, s.s. að tilnefna a.m.k. eitt alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði á lista hans, stuðla að skynsamlegri nýtingu votlendissvæða og taka þátt í alþjóðlegu samstarfi um votlendisverndun. Nú eru aðildarríki samningsins 160.

Við val á svæðum á lista samningsins er litið til ýmissa atriða, m.a. hvort tiltekin tegund votlendis sé sjaldgæf á tilteknu svæði og hvort þar séu sjaldgæfar plöntur eða dýr. Einnig þarf svæðið að vera búsvæði fyrir minnst 20.000 votlendisfugla eða meira en 1% af stofni, en þá telst það mikilvægt á alþjóðavísu. Ramsarsvæðin eiga að njóta sérstakrar athygli og ekki má breyta vistfræðilegum eiginleikum þeirra eða minka þau nema vegna þjóðarhagsmuna. Ef votlendi á skrá samningsins er raskað verður að bæta fyrir það eins og hægt er á sama stað eða þar sem lífríkisaðstæður eru svipaðar.

Alls eru 1950 svæði á skrá samningsins sem eru rúmlega 190 milljón hektarar að stærð. Á Norðurlöndunum eru svæðin 192.

Á skrá samningsins eru þrjú svæði á Íslandi, Grunnafjörður, Mývatn og Þjórsárver. Til viðbótar hafa verið tilnefnd tvö svæði, Guðlaugstungur og Snæfells- og Eyjabakkasvæðið en þau hafa ekki verið formlega samþykkt. Þá er einnig fyrirhugað að tilnefna eitt svæði til viðbótar, Andakíl við Hvanneyri, en það svæði er mikilvægur viðkomustaður blesgæsa vor og haust.

Grunnafjörður

Grunnafjörður var friðlýstur árið 1994 en svæðið var samþykkt sem Ramsarsvæði árið 1996, alls 14,7 km2. Tilgangur friðlýsingarinnar var að vernda landslag og lífríki svæðisins, sérstaklega fuglalífið sem er mjög auðugt. Fjörðurinn er eina Ramsarsvæðið á Íslandi sem liggur að sjó. Í Grunnafirði eru víðlendar leirur og má segja að fjörðurinn sé frekar leirulón en eiginlegur fjörður. Leirur eru gjarnar auðugar af burstaormum svo sem sandmaðki og leiruskera og fer það eftir seltumagni hvaða tegund er ríkjandi. Nokkuð er um krækling og sandskel, fjöruflær og lónafló eru algengar.

Margir vaðfuglar, svo sem sendlingur, lóuþræll, sandlóa og tjaldur byggja tilveru sína á lífríki leiranna. Í firðinum halda til margir æðarfuglar. Margæs hefur viðkomu í Grunnafirði á ferðum sínum frá meginlandi Evrópu til heimskautasvæðanna vor og haust en fjörðurinn er sérstaklega mikilvægur fyrir ýmsa fargesti auk margæsar, t.d. rauðbrysting. Margar fuglategundir treysta á Grunnafjörð á veturna og má þar meðal annars nefna tjaldinn. Um ósinn synda laxar á leið í Laxá í Leirársveit.

Mývatn og Laxá

Mývatn og Laxá voru vernduð með sérlögum árið 1974 og samþykkt sem Ramsarsvæði þremur árum seinna, árið 1977. Í heildina er svæðið um 200 km2.

Mývatn varð til fyrir um 3800 árum þegar hraun rann frá Ketildyngju og stíflaði upp „fyrsta“ Mývatn sem var svipað að stærð og núverandi vatn. Eldsumbrot á svæðinu urðu síðan til þess að vatnið mótaðist í þá mynd sem það er í dag.

Aðeins ein á rennur í Mývatn, Grænilækur, sem kemur úr Grænavatni sem er stutt sunnan við Mývatn. Annað aðrennsli kemur um lindir meðfram austurströnd vatnsins en talið er að vatnasviðið nái frá Dyngjufjöllum í suðri og hálfa leið austur að Jökulsá á Fjöllum. Lindavatnið er ýmist kalt eða volgt jarðhitavatn. Vatnsrennsli af yfirborði er mjög lítið og rennslið í vatnið því mjög jafnt.

Laxá fellur úr Mývatni í þremur farvegum, Ystukvísl, Miðkvísl og Syðstukvísl. Áin rennur í smáfossum með lygnum pollum inn á milli, innan um fallega gróna hólma með blágresi, hvönn, sóleyjum og víði.

Mývatn sjálft, ásamt Laxá sem fellur úr því, er eitt frjósamasta ferskvatn hér á landi. Vatnið er fjórða stærsta stöðuvatn landsins, um 37 km2 að stærð. Mývatns- og Laxársvæðið samanstendur af frekar grunnu vatni með mörgum eyjum og hólmum, vatns- og árbökkum, mýrum og flæðiengjum. Meðaldýpi vatnsins er aðeins um 2,5 m en mesta dýpi um 4 m. Lífríki svæðisins  er einstætt og sérstaklega fjölbreytt. Það byggir að miklu leyti á næringarríku jarðvatni, mikilli sólargeislun og hagstæðu vatnsdýpi fyrir botngróður og varpfugla. Fuglalíf svæðisins er mjög fjölbreytt, einkum vatna- og votlendisfuglar og silungsveiði er góð. Mývatnssveit er einnig þekkt fyrir einstakar jarðfræðiminjar.

Undirstaða hins fjölbreytta lífríkis er mikill vöxtur þörunga í vatninu en á þeim lifa mýlirfur og krabbadýr sem eru mikilvæg áta fyrir fugla og fiska. Botngróður er mikill og skilyrði fyrir vatnafugla góð vegna þess hve vatnið er hæfilega grunnt. Þar er urmull af mýflugulirfum af mörgum tegundum en þær púpa sig og taka á sig mýflugumynd á vissum tímum sumars, einkum í byrjun júní og ágúst. Laxá er einnig talin frjósamasta straumvatn á Íslandi. Fuglalíf svæðisins er mjög fjölskrúðugt. Þar eru endur mest áberandi en á Mývatns- og Laxársvæðinu verpa allar íslenskar andategundir að brandönd undanskilinni, þar á meðal tegundir sem eiga allt sitt undir þeim sérstæðu lífsskilyrðum sem þar ríkja. Til dæmis byggir húsandastofninn tilvist sína á vatnakerfi Mývatns og Laxár og heldur til þar allt árið. Stærsta flórgoðabyggð landsins er í Mývatnssveit og verpa þar yfir 200 pör að jafnaði. Auk flórgoða og húsandar eru tvær tegundir sem finnast óvíða annarsstaðar hér á landi, hrafnsönd og gargönd. Þá hafa einnig sést aðrar tegundir á svæðinu sem flokkast ekki sem íslenskar, t.d. hringönd, hrókönd og hvítönd. Flestar andategundirnar yfirgefa svæðið á haustin en þó eru nokkrar tegundir sem hafa vetursetu í Mývatnssveit.

Þjórsárver

Þjórsárver eru ein víðáttumesta og afskekktasta gróðurvin á hálendi Íslands, um 140 km2 að flatarmáli. Sérstaða veranna og tilvist er fyrst og fremst vegna samspils jökla, vatns, jarðvegs, veðurfars, gróðurfars og dýralífs. Verin eru hluti mikilfenglegrar náttúru og landslagsheildar sem er að mestu leyti ósnortin.

Þjórsárver voru lýst friðland árið 1981 og samþykkt sem Ramsarsvæði 1990. Verin eru að mestu leyti vestan Þjórsár sunnan Hofsjökuls og eru í um 600 m hæð yfir sjó. Friðlandið er alls um 375 km2 og gróðurlendi um 93 km2 en þar af er votlendi um helmingur. Gróðurvinjar hálendisins eru leifar samfellds gróðurs sem var áður fyrr miklu víðáttumeira og samfelldara en nú og eru heimkynni fjölda lífvera sem þrífast ekki í auðninni umhverfis. Þjórsárver er tegundaauðugasta hálendisvin landsins sem þekkt er og þar finnast fleiri tegundir en nokkurs staðar annars staðar á hálendi Íslands, en þar eiga flestir hópar lífvera fulltrúa. Í Þjórsárverum hafa t.d. fundist fjöldi háplantna (187), mosa (237) og fléttna (239) og 284 tegundir smádýra. Fuglalíf Þjórsárvera er ágætlega þekkt, einkum vegna rannsókna á heiðagæsum sem hafa staðið yfir í nær 60 ár. Í Þjórsárverum hafa verið skráðar 47 tegundir fugla og af þeim er talið að um 27 hafi orpið í verunum. Varpið er mest í votlendi. Heiðagæsavarpið í Þjórsárverum var lengi vel það langstærsta í heiminum en á síðustu árum hefur varppörum fækkað.

Fram á 18. öld voru heiðagæsastofnar í Þjórsárverum nýttir. Þegar gæsin var í sárum var henni smalað og hún rekin í réttir og enn má sjá minjar um slíkt í verunum. Slíkt þekkist ekki annarsstaðar á landinu. Álftir voru einnig teknar í Þjórsárverum og þeim slátrað.

Búsvæði í Þjórsárverum eru fjölbreyttari en í öðrum hálendisvinjum, s.s. flæðiengjar, tjarnastararflóar, gulstararflóar, brokflóar, flár með smágerðu mynstri rústa og tjarna, heiðagróður ýmiss konar, jurtastóð og háfjallagróður.

Þjórsárver eiga tilveru sína að þakka vatninu, jökulvatni jafnt sem lindarvatni. Vatn er allsstaðar, ár og lækir sem streyma á yfirborði, lindir og tjarnir. Í Þjórsárverum er að finna fjölbreyttasta rústasvæði landsins sem er sjaldgæft landslagsfyrirbæri sem verður til þegar ískjarni myndar stórar þúfur, rústir, í mýrlendi.

Í nokkurn tíma hafa legið frammi áætlanir um nýtingu vatnsafls í Þjórsárverum. Nú þegar hefur verið sett upp vatnsmiðlunarmannvirki, Kvíslaveita, í jaðri friðlandsins og eins hafa verið uppi áform um gerð Norðlingaölduveitu í nágrenni núverandi friðlands.

Guðlaugstungur

Guðlaugstungur hafa verið tilnefndar á skrá Ramsarsamningsins sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði. Svæðið hefur ekki verið samþykkt formlega.

Guðlaugstungur, Svörtutungur og Álfgeirstungur voru friðlýstar árið 2005. Markmið friðlýsingarinnar er að vernda víðfeðmt og gróskumikið votlendi og stórt, fjölbreytt og mikilvægt rústasvæði. Guðlaugstungur eru á hálendinu norðvestan við Hofsjökul og er friðlýsta svæðið rúmlega 401 km2. Friðlýsta svæðið í heild sinni hefur verið tilnefnt á skrá Ramsar samningsins, en svæðið markast af tveimur jökulám sem renna úr Hofsjökli og sameinast svo í Blöndulóni.

Guðlaugstungur eru eitt af umfangsmestu votlendissvæðum hálendis Íslands. Votlendið skapar fjölbreytt búsvæði fyrir plöntur og dýr, sérstaklega fugla. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt fram á að votlendið í Guðlaugstungum er eitt stærsta varpsvæði heiðagæsar á Íslandi og hefur verið áætlað að þar verpi um 13.600 pör, eða um 25% af öllum heiðagæsastofninum á Íslandi og um 18-21% af heimsstofninum. Svæðið er einnig mikilvægt fyrir aðra fugla en þar eiga búsvæði m.a. heiðlóa, lóuþræll, þúfutittlingur og snjótittlingur.

Helstu ástæður þess að svæðið er talið eiga heima á lista Ramsar samningsins eru rústamýrarnar sem þar er að finna, en slík gerð votlendis er mjög sjaldgæf hér á landi. Þá er svæðið mikilvægt varpsvæði fyrir heiðagæsir og aðra fugla.

Snæfells- og Eyjabakkasvæðið

Snæfells- og Eyjabakkasvæðið hefur verið tilnefnt á skrá Ramsarsamningsins sem alþjóðlega mikilvægt votlendissvæði. Svæðið hefur ekki verið samþykkt formlega.

Snæfells- og Eyjabakkasvæðið eru innan Vatnajökulsþjóðgarðs. Auk þess hafa bæði svæðin verið skráð á náttúruminjaskrá (nr. 615 og 616). Í náttúruminjaskrá kemur fram að svæðin eru gróin hálendissvæði og mikilvæg beitilönd heiðagæsa og hreindýra auk þess sem óvenju grösug votlendissvæði með fjölda tjarna er að finna á Eyjabakkasvæðinu, en Eyjabakkasvæðið er eitt umfangsmesta og fjölbreyttasta votlendissvæði á hálendi Íslands. Yfir 30 tegundir fugla hafa sést á svæðinu og í nágrenni þess og af þeim verpa 21 tegund. Eyjabakkasvæðið er mjög mikilvægt fellisvæði heiðagæsa á sumrin, en rannsóknir á heiðagæs á svæðinu hafa verið gerðar síðan 1979. Síðan 2004 hefur fjöldi heiðagæsa á svæðinu verið á bilinu 2000-5000 fuglar og árið 2009 var fjöldinn metinn rúmlega 3000 fuglar sem er um 1% af heiðagæsastofninum. Auk þess að vera fellistaður heiðagæsa, verpa þær líka á svæðinu. Aðrir algengir varpfuglar á svæðinu er álft, heiðlóa, lóuþræll og snjótittlingur. Þéttleiki varps hefur verið áætlaður 48,8 pör á hverjum km2. Á Eyjabakkasvæðinu hafa fundist 319 plöntutegundir, en flestar þeirra eru tiltölulega algengar hér á landi.