Stök frétt

Héðan í frá verða allar eftirlitsskýrslur Umhverfisstofnunar birtar á vefnum. Þannig getur hver sem er fylgst með stöðu mála hvað varðar mengandi starfsemi, hvar sem er á landinu, hvenær sem er. Það eina sem þú þarft er að fara inn á umhverfisstofnun.is. Á forsíðu vefsins er hægt að skoða landakort með öllum fyrirtækjunum sem Umhverfisstofnun hefur eftirlit með og komast beint inn á hvert fyrirtæki fyrir sig. Þar er hægt að skoða starfsleyfið, eftirlitsskýrslur og upplýsingar um beitingu þvingunarúrræða ef þess hefur verið þörf.

Umhverfisstofnun hefur eftirlit með mengandi starfssemi, svo sem álverum, efnaiðnaði, fiskeldi og kræklingarækt, fiskimjölsverksmiðjum, olíubirgðastöðvum, úrgangi, efnamóttöku og verksmiðjum. Reglubundið eftirlit fer fram ýmist einu sinni eða tvisvar á ári, allt eftir eðli og umfangi starfsseminnar. Að loknu eftirliti vinnur eftirlitsmaður eftirlitsskýrslu sem er svo send til rekstraraðila ásamt kröfu um úrbætur ef skilyrði í starfsleyfi hafa ekki verið uppfyllt. Í eftirlitsskýrslunni koma fram upplýsingar um hvort viðkomandi fyrirtæki standist þær kröfur sem gerðar eru eða ekki.

Gerðar voru umfangsmiklar breytingar á Umhverfisstofnun árið 2008 og í kjölfarið unnin mikil stefnumótunarvinna á öllum sviðum. Þar á meðal var sett ný upplýsingastefna árið 2009 þar sem ákveðið var að miðla meiru fremur en minna og láta gagnsæi ráða för. Með birtingu eftirlitsskýrslnanna er einum áfanga náð í því að bæta upplýsingamiðlun um umhverfismál. Frekari umbóta er að vænta á næstunni, þar á meðal ítarlegri upplýsinga um þær umhverfiskröfur sem gerðar eru til starfsleyfisskyldra fyrirtækja. Gagnsæi í opinberri stjórnsýslu er öllum til hagsbóta því hún kemur í veg fyrir mismunun, eykur fagmennsku og þrýsting á um að rétt sé staðið að málum. Þess fyrir utan eru upplýsingar um umhverfismál mikilvægar öllum þeim sem bera hag umhverfisins fyrir brjósti og vilja heilnæmt umhverfi.

Umhverfisstofnun hvetur fólk til þess að kynna sér eftirlit með mengandi starfsemi og koma ábendingum á framfæri við stofnunina. Það er flipi hægra megin á síðunni okkar sem heitir „ábendingar“ og með því að smella á hann kemur upp vefform sem auðvelt er að fylla út og senda okkur. Allar ábendingar eru vel þegnar, ekki síst ef fólk hefur grun um að fyrirtæki séu að fara á svig við þær kröfur sem þeim ber að uppfylla.

Hvernig getur þú fylgst með eftirlitinu?
Á forsíðunni er flipi í boxi hægra megin sem heitir „eftirlit“ með því að smella á hann birtist mynd sem er merkt „mengandi starfsemi“ og ef smellt er á hana kemur upp landakort með punktum af öllum þeim fyrirtækjum sem Umhverfisstofnun hefur eftirlit með. Með því að smella á punktana fást nánari upplýsingar um viðkomandi fyrirtæki og einnig býðst að smella þar á „meira“ og fara þá beint inn á vefsíðu viðkomandi fyrirtækis. Þar verður að finna eftirlitsskýrslur, starfsleyfi og önnur gögn um viðkomandi fyrirtæki.

Einnig er hægt að smella á vefflokkinn „mengandi starfsemi“  og skoða þá flokka fyrirtækja sem Umhverfisstofnun hefur eftirlit með, s.s. álver, urðunarstaði og verksmiðjur. Með því að fara með músarbendilinn yfir vefflokkinn „einstaklingar“ á forsíðunni má komast beint á tiltekna undirflokka.