Stök frétt

Hjá Umhverfisstofnun er laust til umsóknar starf sérfræðings í friðlýsingum.

Starf sérfræðingsins felst í úrvinnslu friðlýsingartillagna, samráði og undirbúningi að samkomulagi við landeigendur og sveitarfélög sem og tillögugerð til umhverfisráðuneytisins. Starfið felur einnig í sér vinnu við umsagnir um þingmál, fræðslu og sérverkefni.

 

Gerð er krafa um:

  • Meistarapróf í opinberri stjórnsýslu, náttúruvísindum s.s. umhverfis- og auðlindafræði eða sambærilegri menntun.
  • Reynslu af störfum innan stjórnsýslunnar.  
  • Hæfni í samráðs- og samningatækni
  • Þekkingu á löggjöf og stjórnsýslu náttúruverndarmála
  • Góða kunnáttu í íslensku, einu Norðurlandamáli og ensku.

Að öðru leyti verða eftirfarandi þættir hafðir til hliðsjónar við ráðstöfun starfsins:

  • Reynsla af miðlun upplýsinga og fræðslu til mismunandi hópa
  • Þekking á alþjóðsamningum á sviði náttúruverndarmála
  • Skipulagshæfni, sjálfstæði og frumkvæði
  • Samstarfshæfni og sveigjanleiki í starfi

Yfirmaður sérfræðingsins er Sigrún Ágústsdóttir sviðsstjóri sviðs laga og stjórnsýslu, sem veitir nánari upplýsingar um starfið ásamt Sigrúnu Valgarðsdóttir starfsmannastjóra í síma 591 2000.

Laun eru samkvæmt kjarasamningi fjármálaráðherra og hlutaðeigandi stéttarfélags.

Bæði konur og karlar eru hvött til að sækja um starfið.

Æskilegt er að starfsmaður geti hafið störf sem fyrst. Föst starfsaðstaða starfsmannsins getur verið í Reykjavík, Hellissandi, Patreksfirði, Ísafirði, Akureyri, Mývatni, Egilsstöðum eða Vestmannaeyjum, allt eftir búsetu umsækjanda. Gert er ráð fyrir að gagnkvæmur reynslutími séu sex mánuðir við ráðningu.

Umsóknir skulu sendar til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík eða á netfangið ust@ust.is eigi síðar en 19. desember 2011.

Sjá nánari upplýsingar um Umhverfisstofnun á umhverfisstofnun.is

Njótum umhverfisins og stöndum vörð um það saman