Stök frétt

Íslendingar eru frægir fyrir að skjóta upp ósköpunum öllum af flugeldum á nýársnótt. Áhrifin á andrúmsloftið eru öllum ljós en þau eru skammvinn og oftast nær er loftið orðið hreint á nýársdag. Það er hins vegar ekki allt sem sýnist. Í flugeldum geta verið efni sem berast út í umhverfið, safnast þar upp og geta jafnvel haft alvarleg áhrif á heilbrigði dýra efst í fæðukeðju. Fólk ætti þó ekki að láta áhyggjur af umhverfinu eyðileggja fyrir sér áramótin en þó er um að gera að spyrja seljendur hvort flugeldarnir standist kröfur um efnainnihald .

HCB (hexaklórbensen) er þrávirkt efni líkt og DDT og PCB en uppsöfnun þeirra í umhverfinu hefur valdið miklum skaða undanfarna áratugi. HCB er að finna í sumum flugeldum, en það er notað til þess að magna upp litina við sprengingu. Notkun þess er með öllu bönnuð hvort sem er í flugeldum eða í öðrum tilgangi. Það greindist í andrúmsloftinu í Reykjavík um síðustu áramót í margfalt hærri styrk en eðlilegt þykir. Efni sem skaðleg eru umhverfinu mælast jafnan í lægri styrk við Ísland en í nágrannalöndunum. Það á ekki við um HCB sem hefur mælst í meira magni í umhverfinu hér við land en hægt er að útskýra með mengun frá fjarlægum uppsprettum.

Umhverfisstofnun tekur nú þátt í samevrópsku verkefni sem miðar að því að fyrirbyggja þessa notkun í framtíðinni þannig að hægt verði að njóta ljósadýrðarinnar á nýársnótt án þess að hafa of miklar áhyggjur af mengun af völdum skaðlegra efna.

Góð ráð:

  • Spyrjum söluaðila hvort flugeldarnir uppfylli kröfur um efnainnihald.
  • Notum ætíð hlífðargleraugu þegar skotið er upp.
  • Brýnum fyrir börnum að umgangast flugelda af varúð.