Stök frétt

Höfundur myndar: Jóhann Óli Hilmarsson

Þann 10. janúar sl. samþykkti bæjarstjórn Kópavogs að friðlýsa hluta Skerjafjarðar sem er innan bæjarmarka Kópavogs með fjörum ásamt grunnsævi. Friðlýst verða tvö svæði, annars vegar í Kópavogi (39 ha) og hins vegar í Fossvogi (23,6 ha), alls um 62,6 ha svæði sem mikilvæg búsvæði fugla skv. 3. tölulið 53. greinar og 54. greinar laga um náttúruvernd, nr. 44/1999. Tillaga bæjarstjórnar Kópavogsbæjar og Umhverfisstofnunar til umhverfisráðherra um mörk og skilmála friðlýsingarinnar er nú auglýst til kynningar, sjá tengt efni.

Skerjafjarðarsvæðið í heild hefur alþjóðlegt verndargildi vegna farfuglategunda, svo sem rauðbrystings og margæsar en þar er að finna lífríkar þangfjörur, leirur og grunnsævi sem skapa undirstöðu fyrir afar fjölbreytt fuglalíf allan ársins hring. Einnig er svæðið mikilvægt vegna marhálms og sjávarfitjungs sem hafa takmarkaða útbreiðslu hér á landi, en marhálmur er ein aðal fæða margæsar. Í Fossvogi og Kópavogi er stór hluti af leirum á Skerjafjarðarsvæðinu. Fræðslugildi svæðisins er hátt með tilliti til lífríkis og aðgengi að svæðinu er gott. Strandlengjan er vinsæl til útivistar og í Fossvogi eru iðkaðar siglingar og annað sjósport.

Frestur til að skila ábendingum er 27. janúar 2012 og skal þeim skilað í gegnum heimasíðu Umhverfisstofnunar.

Tengt efni