Stök frétt

Í dag, 30 janúar, mun Framkvæmdastjórn Evrópusambandsins opna skráningakerfi viðskiptakerfis með losunarheimildir  (ETS). Opnunin er liður í sameiningu skráningakerfa aðildarríkjanna sem hingað til hafa rekið sér kerfi hvert. Sameiginlega kerfinu er ætlað að færa meira öryggi í viðskipti innan ETS og draga úr líkum á þjófnaði á losunarheimildum sem og virðisaukaskattsvindli vegna þeirra.

Opnunin er þó til að byrja með takmörkuð við  flugrekendur sem hafa fengið loforð um endurgjaldslausa úthlutun. Frá og með deginum í dag geta þeir stofnað reikninga í skráningakerfinu að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Alls eru 9 flugrekendur sem hljóta endurgjaldslausar heimildir en stofnun reiknings í skráningakerfinu gerir Umhverfisstofnun kleift að úthluta heimildunum til þessara aðila.

Eftir sem áður er þó enn ekki hægt að eiga viðskipti með losunarheimildir á Íslandi, vegna þeirra ákvörðunar Framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins um að opna kerfið í tveimur skrefum. Seinna skrefið verður tekið í lok júní en þá munu allir þeir aðilar sem þess óska geta stofnað reikning, að ákveðnum skilyrðum uppfylltum og stundað viðskipti með losunarheimildir.