Stök frétt

Í morgun hefur verið í fréttum lýsing á atburðum síðastliðna nótt þegar Brúarfoss varð vélarvana vestur af Reykjanesi og rak stjórnlaust að landi undan hvassri vestanátt. Betur fór en á horfðist og er það vel. Á þessu svæði fer iðulega saman hvassar vindáttir, oft í átt að landi og miklar öldur. Strandir Reykjanesskagans viðkvæm og mikilvæg svæði, m.a. fyrir fuglalíf þar sem umhverfisáhrif af mengunaróhappi geta hæglega verið alvarleg.

Umhverfisstofnun vill vekja athygli á því að ein ástæða þess hve vel fór er án efa sú að árið 2008 var skilgreint svæði sem skipum bæri að forðast í kring um Reykjanes. Aðgerð þessi var m.a. gerð í kjölfarið á strandi Wilson Muuga við Hvalsnes á Reykjanesskaga í desember 2006, ekki langt frá þeim atburðum sem nú gerðust.

Markmið með að skilgreina þetta svæði var ekki síst að ýta skipum lengra frá ströndum, svo að tími gæfist til viðbragða og jafnvel að veita aðstoð ef eitthvað óhapp kæmi til, t.d. vélarbilun. Ekki hefði verið að sökum að spyrja ef skipið hefði siglt mikið nær landi, eins og oft tíðkaðist hjá skipum fram til 2008. Skýringarmyndir og nánari upplýsingar um atburðarásina má finna í frétt á vef Landhelgisgæslunnar.

Enn sannast það að þrátt fyrir að enginn efist um hæfi skipsstjórnenda og búnað skipa geta alltaf komið upp bilanir og atvik sem erfitt er að ráða við og forvarnir því nauðsynlegar.