Stök frétt

Höfundur myndar: Bergþóra Kristjánsdóttir

Unnið er að friðlýsingu Seljahjallagils, Bláhvamms, Þrengslaborga og nágrennis í Skútustaðahreppi sem náttúruvættis. Svæðið er í landi jarðarinnar Grænavatns, það er 2117,8 hektarar að stærð, og liggur bæði samþykki landeigenda og sveitarstjórnar fyrir friðlýsingunni.  

Á svæðinu er að finna merkar minjar frá jarðeldunum sem skópu Mývatn og umgjörð þess. Fyrir tæpum 4.000 árum rann Laxárhraun eldra frá Ketildyngju um Seljahjallagil, breiddi úr sér á Mývatnssvæðinu og rann áfram niður Laxárdal og Aðaldal. Við það stíflaðist afrennsli Mývatnssvæðisins og stöðuvatn myndaðist, álíka stórt og Mývatn, en með ólíka lögun. Fyrir um 2.300 árum rann Laxárhraun yngra frá Lúdentarborgum, Þrengslaborgum og Borgum í Grænavatnsbruna. Einn gíganna frá þessu gosi er í Seljahjallagili. Hraunið rann um Mývatnssvæðið, niður Laxárdal og Aðaldal allt að Skjálfanda. Dimmuborgir mynduðust í þessu gosi sem og gervigígar við Mývatn, í Laxárdal og í Aðaldal. Í gosinu varð Mývatn til í núverandi mynd.

Í Bláfjalli og Bláfjallsfjallgarði eru fjölbreyttar móbergs- og grágrýtismyndanir frá ísöld með giljum og hvömmum sem grafist hafa út við lok ísaldar. Seljahjallagil er víða 100-150 m djúpt og um 500 m á breidd að meðaltali. Nyrst í gilinu hefur leysingavatn grafið nýtt gil ofan í hraunið og koma þar fram miklir klettadrangar með einhverju fegursta og fjölbreyttasta stuðlabergi á austanverðu Norðurlandi. Bláhvammur er gróðurríkt hlíðasvæði suður af Seljahjallagili vaxinn birkiskógi og blómgróðri. Hvammurinn er klettahvilft sem jökulvatn hefur grafið í móbergið og er þar greinilegt gamalt fossstæði. Í náttúruvættinu er einnig að finna fálkaóðul sem eru setin árlega.

Tillaga Umhverfisstofnunar og landeigenda um mörk og skilmála friðlýsingarinnar er nú auglýst til kynningar, sjá tengt efni.  Frestur til að skila ábendingum er 24. febrúar 2012 og skal þeim skilað í gegnum heimasíðu Umhverfisstofnunar.