Stök frétt

Höfundur myndar: Kristinn Már Ársælsson

Umhverfisstofnun hefur nýverið lokið yfirferð tillögu iðjuveranna á Grundartanga að vöktunaráætlun iðnaðarsvæðisins fyrir næstu 10 árin. Við yfirferðina var tekið tillit til umsagna við tillöguna sem stofnuninni bárust og svör iðjuveranna við þeim. Stofnunin leitaði einnig til sérfræðinga og fulltrúa iðjuveranna um úrlausn ákveðinna atriða. Í kjölfarið var iðjuverunum falið að skila til Umhverfisstofnunar endanlegri áætlun. Þegar endanleg vöktunaráætlun hefur borist verður hún birt á heimasíðu stofnunarinnar.

Niðurstaða Umhverfisstofnunar var að auka við umfang vöktunar í sumum tilfellum. Þetta á m.a. við um að gerð er krafa um að bætt verði við loftgæðamælistöð í vesturenda þynningarsvæðis, teknar verði upp mælingar á PAH í svifryki og í sjávarseti, og að í árlegri skoðun dýralæknis  á heilsufari sauðfjár á bæjum í grennd við iðjuverin verði fylgst með heilsufari hrossa. Stofnunin taldi auk þess að vakta bæri áfram hluta  af þeim þáttum sem iðjuverin óskuðu eftir að dregið væri úr eða hætt, s.s. um veðurmælingar og vöktun á efnainnihaldi í heyi. Enn fremur setti Umhverfisstofnun fram kröfu um aðgengi að vöktunaráætlun, endurskoðun hennar, um framsetningu niðurstaðna og um kynningarfundi.

Stofnunin féllst hins vegar á ósk iðjuveranna um að í ákveðnum sértilgreindum tilvikum mætti draga úr vöktun eða sleppa þar sem niðurstöður vöktunarmælinga hingað til hafa ekki sýnt breytingar eða talið að þær gæfu upplýsingar um áhrif af iðjuverunum. Meðal þess var að dregið yrði úr tíðni sýnatöku úr Berjadalsá, Fossá í Eyrarfjalli og Laxá í Leirársveit en ekki hefur mælst marktæk breyting á mæliþáttum í þeim allt frá 1997 sem rekja mætti til iðjuveranna (mælingar hófust árið 2000 í Fossá) eða í allt að 14 ár.  Eftirfarandi þættir eru mældir í ánum: Leiðni (gefur til kynna heildarmagn uppleystra efna), sýrustig, flúor, klóríð og súlfat (brennisteinsoxíð). Í Berjadalsá verða tekin þrjú sýni með jöfnu millibili frá apríl til október ár hvert, í stað sýnatöku í hverjum mánuði þetta tímabil. Í Fossá og Laxá verður eitt sýni tekið á miðju sumri ár hvert í stað sýnatöku í hverjum mánuði frá apríl til október.

Varðandi Berjadalsá ber þess að geta að á svæðinu hagar þannig til að hábunga Akrafjalls (og þar með eystri mörk vatnasviðs Berjadalsár) er um 2 km vestan við endimörk ytra þynningarsvæðis (fyrir önnur efni en flúor). Það er því ekki gert ráð fyrir upphleðslu neinna efna á vatnasvæðinu enda staðfestir vöktun undanfarinna ára það. Stofnunin bendir jafnframt á að í leysingum eftir mikla snjóa berst mikið umframmagn af vatni af öllu vatnasviði Berjadalsár í farveginn sem mun frekar leiða til aukinnar þynningar en aukningar á þeim mengunarefnum sem hugsanlega gætu borist í neysluvatn. Gerð er auk þess rík krafa um eftirlit með gæðum neysluvatns og er því fylgst með því að vatnið í Berjadalsá uppfylli gæðaviðmið.