Stök frétt

Umhverfisráðuneytið, Umhverfisstofnun, Veðurstofa Íslands, Landgræðsla ríkisins og Íslenska vatnafræðinefndin efna til hádegisfyrirlestra undir yfirskriftinni Má bjóða þér vatn?

Fyrstu erindin verða í Norræna húsinu, miðvikudaginn 2. maí kl. 12:10 – 13:00 og verður fjallað um vatnsauðlindina á Íslandi og aðgang að vatni á heimsvísu. Fyrirlesarar eru tveir:

Árni Snorrason, forstjóri Veðurstofu Íslands, flytur erindi um Vatnsauðlindir Íslands. Hann fjallar um stærð vatnsauðlindarinnar og eiginleika, nýtingu hennar til neyslu, iðnaðar og orkuframleiðslu, gildi hennar sem hluti mikilvægra vistkerfa og áhrif loftslagsbreytinga á vatnsauðlindina.

Bjarni Gíslason, upplýsingafulltrúi Hjálparstarfs kirkjunnar, flytur erindi undir yfirskriftinni Afríka – nóg vatn en samt ekki. Hann mun m.a. segja frá nýjum fréttum af því að víða í Afríku er mikið grunnvatn en þó hafa 300 milljónir manna þar ekki aðgang að hreinu vatni. Sömuleiðis deilir hann sinni eigin upplifun af vatnsauðlindinni í Afríku eftir að hafa búið í Eþíópíu í 18 ár.

Að loknum erindum gefst tími til spurninga og umræðna.

Aðgangur er ókeypis og eru allir velkomnir.

Erindin eru þau fyrstu í röð hádegisfyrirlestra sem efnt er til í tilefni af evrópsku ári vatnsins. Í þeim verður fjallað um vatn frá ólíkum sjónarhornum og er gert ráð fyrir að þau verði með reglulegu millibili út árið.