Stök frétt

Höfundur myndar: Katrín Hilmarsdóttir

Ræstingaþjónustan Fjarðaþrif ehf.  er sjötta ræstingaþjónustan á Íslandi til að hljóta Svansvottun og er jafnframt sú fyrsta á landsbyggðinni. Bætist því Fjarðaþrif í ört stækkandi hóp Svansmerktra fyrirtækja, en þau eru nú orðin 20.

Fjarðaþrif er austfirskt fjölskyldufyrirtæki sem stofnað var árið 2003 og veitir alhliða hreingerningaþjónustu. Hjá Fjarðaþrifum starfa nú um 30 manns um allt Austurland.. Fjarðaþrif þjónustar m.a. Fjarðaál á Reyðarfirði. Fjarðaþrif hefur áður hlotið hvatningarverðlaun Þróunarfélags Austurlands árið  2010. Svansvottuð ræstingaþjónusta býður viðskiptavinum sínum upp á umhverfisvæna ræstingaþjónustu með því að nota meðal annars minna magn af efnavöru sem að mestu leyti er umhverfisvæn, minna magn af plastpokum og rekur umhverfisvæna bíla. Allt er þetta samofið hágæða ræstingu og vel þjálfuðu starfsfólki.   

Kristín Linda Árnadóttir forstjóri Umhverfisstofnunar afhenti Láru E. Eiríksdóttur og Björgvini Erlendssyni, eigendum ræstingaþjónustunnar Fjarðaþrif ehf., vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins. 

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og viðmiðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum.