Stök frétt

Kúluskítur er sjaldgæft, hnöttótt vaxtarform  grænþörungs sem nefnist vatnaskúfur (Aegagropila linnaei). Kúlurnar, sem flestar eru 12-15 cm í þvermál, liggja saman í flekkjum á botninum og mynda afar sérstæð samfélög sem aðeins þekkjast á tveimur stöðum í heiminum, Akanvatni í Japan og í Mývatni. Mývatn er friðað og einnig er Kúluskíturinn friðlýstur. Gefin var út verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá  fyrsta skipti á síðasta ári. 

Lífríki Mývatns er vaktað af Rannsóknarmiðstöðinni Mývatni. Við leit síðastliðið sumar kom í ljós að kúluskít hefur fækkað verulega. Einungis fundust nokkrir kúluskítar á víð og dreif. Hugsanlegt er að vindur hafi fært þekkta flekki til eða að þeir hafi tvístrast. Rannsóknir benda til að of lítil birta og of mikill eða lítill vindur hafi áhrif á kúluskítinn. Breytingar á stöðu kúluskíts geta verið af náttúrulegum orsökum og/eða áhrifum manna en óvitað er enn sem komið er hverjar orsakir fækkunarinnar eru.

Nú í sumar fer fram ítarleg leit að kúluskít í Mývatni með fjarstýrðum kafbáti. Það er Rannsóknarmiðstöðin að Mývatni sem hefur umsjón með leitinni. Einnig taka þátt í því verkefni Erla Björk Örnólfsdóttir, nýskipaður rektor háskólans á Hólum og Isamu Wakana, einn helsti kúluskítsfræðingur í heimi, sem verður á Mývatni í sumar.

Í verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá segir: 

„Haldið verði áfram að vakta útbreiðslu, lífsferil, vöxt og viðgang kúluskíts og reynt verði að grafast fyrir um orsakir hinnar miklu fækkunar hans.” 

Umhverfisstofnun er með starfsstöð og heilsársstarfsmann á Mývatni sem hefur umsjón með svæðinu. Fylgst er með þróun mála, m.a. rannsóknum Rannóknarmiðstöðvarinnar á Mývatni, og gripið verður til þeirra aðgerða sem völ er á til þess að bregðast við fækkun kúluskíts. Nú stendur yfir gerð reglugerðar um Mývatn og lögð verður áhersla á að koma þar inn atriðum til verndunar á kúluskítnum ef þurfa þykir.

Úr verndaráætlun Mývatns og Laxár

Kúluskíturinn vex á þremur svæðum á botni Mývatns og er hvert um sig 0,5-2 hektarar að stærð. Hefur flatarmál stærsta flekksins minnkað mikið hin síðari ár af ókunnum orsökum. Kúluskíturinn liggur sums staðar í tveimur til þremur lögum, og þurfa mjög sérstök skilyrði að ríkja þar svo að þörungarnir  fái þrifist. Talið er að þessi samfélagsgerð þörungsins byggist á óvenjulegu samspili strauma, setmyndunar, ölduhreyfingar, botngerðar og birtu. Uppeldisstöðvar kúluskítsins eru enn lítt þekktar, en kúlurnar eru taldar berast í flekkina með straumum nærri fullskapaðar.

Vatnaskúfurinn gegnir veigamiklu hlutverki í lífríki Mývatns því að hann skapar undirlag fyrir ýmis smádýr sem silungur og fuglar sækjast eftir til átu. Eins framleiðir hann mikið af súrefni sem oft er af skornum skammti niðri við vatnsbotninn.  Kúluskítur er friðaður á Íslandi(Stjórnartíðindi B, nr. 523/2006). Hann er viðkvæmur fyrir breytingum á birtu, sem oftast má rekja til svifgróðurs í vötnum í kjölfar næringarefnamengunar.