Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að hafna umsókn Sæferða í Stykkishólmi um undanþágu til þess að sigla að arnarhreiðrum á Breiðafirði.

Íslenski haförninn er alfriðaður og nýtur sérstakrar verndar samkvæmt ákvæðum 19. gr. laga um vernd, friðun og veiðar á villtum fuglum og villtum spendýrum nr. 64/1994. Kemur þar fram að frá 15. mars til 15. ágúst er óheimilt að koma nær arnarhreiðrum en 500 m nema brýna nauðsyn beri til. Einnig kemur þar fram að Umhverfisstofnun getur veitt undanþágu frá þessu banni, að fenginni umsögn Náttúrufræðistofnunar Íslands, svo sem vegna myndatöku og rannsókna, enda sé sótt um undanþágu fyrir fram. Skilyrði skulu sett um umgang við hreiður við veitingu slíkrar undanþágu.

Í umsögn Náttúrufræðistofnunar í þessu máli kom fram að engir ungar hafa komist á legg á síðasta ári í öðru umræddra hreiðra, en hvort truflun af völdum siglinga eða annað valdi misbresti á varpi sé erfitt að dæma um. Fram kemur að í hinu hreiðrinu hafi ungar ekki komist upp í 4 ár. Að mati Náttúrufræðistofnunar eigi að taka fullt tillit til velferðar fuglana og taka sem allra minnstu áhættu hvað varðar umferð við umrædd hreiður. Í samræmi við varpárangur og markmið laga nr. 64/1994, taldi Náttúrufræðistofnun því að ekki ætti að heimila siglingar að fyrrnefnda hreiðrinu fyrr en eftir 1. júlí þegar ljóst væri hvort varp hefur tekist eða ekki og þá að því tilskildu að fjarlægðarmörk við hreiður verði þau sömu og í fyrri leyfum. Stofnunin lagðist alfarið gegn því að siglingar yrðu heimilaðar að síðarnefnda hreiðrinu.

Við vinnslu umsóknar Sæferða um undanþágu til að sigla að hreiðrunum bárust Umhverfisstofnun ábendingar um að fyrirtækið hefði þegar og án leyfis hafið siglingar nærri arnarhreiðrum. Einnig kom fram í skýrslu fyrirtækisins um siglingar ársins 2011 að fyrirtækið hafi siglt fleiri ferðir að hreiðrum en gert var að skilyrði í þágildandi leyfi og byggði á ábendingum Náttúrufræðistofnunar.

Umhverfisstofnun taldi að með því að heimila undanþágu í ljósi fenginna upplýsinga væri tekin áhætta hvað varðar velferð fuglanna með umferð við umrædd hreiður og ákvað því að hafna umsókn fyrirtækisins um undanþágu til að nálgast arnarhreiður árið 2012.

Umhverfisstofnun hafa einnig borist frekari ábendingar um ólögmætar siglingar nærri hreiðurstæðum arna og vinnur nú að því að kanna þær ábendingar nánar. Telji stofnunin slíkar ábendingar á rökum reistar mun þeim vísað til lögreglu til frekari rannsóknar.