Stök frétt

Umhverfisstofnun hefur ákveðið að synja umsókn Norðursiglingar um leyfi til að sigla með ferðamenn á Mývatni en starfsemin er talin geta haft truflandi áhrif á fuglalíf Mývatns.

Mývatn og Laxá hlutu sérstaka vernd með lögum um verndun Mývatns og Laxár í Suður Þingeyjarsýslu árið 1974. Breyting var gerð með nýjum lögum nr. 97/2004 þar sem svæðið sem lögin taka til var takmarkað við það svæði sem talið var að tryggja þyrfti sérstaka og heildstæða vernd, sbr. 2. gr. sem fjallar um gildissvið laganna. Markmið laganna er að stuðla að náttúruvernd í samræmi við meginregluna um sjálfbæra þróun og tryggja að vistfræðilegu þoli svæðisins verði ekki stefnt í hættu af mannavöldum. Samkvæmt 2. mgr. 3. gr. laganna skal leita leyfis Umhverfisstofnunar fyrir hvers konar framkvæmdum sem haft geta áhrif á lífríki, jarðmyndanir og landslag á verndarsvæðinu.

Umhverfisstofnun leitaði til Náttúrurannsóknarstöðvarinnar við Mývatn (Ramý) um álit þeirra á því hvaða áhrif siglingar gætu haft á fuglalíf á Mývatni. Fram kemur í umsögn Náttúrurannsóknarstöðvarinnar að öll umferð báta um vatnið hafi truflandi áhrif á fuglalíf.

Verndaráætlun fyrir Mývatn og Laxá 2011 – 2016 var undirrituð og staðfest árið 2011. Markmið áætlunarinnar er m.a. að tryggja eðlilega afkomu fugla á svæðinu, að fæðuskilyrðum þeirra sé ekki stefnt í voða eða varplöndum þeirra spillt. Í verndaráætlun er ekki fjallað um atvinnustarfsemi af því tagi er fram kemur í erindi framkvæmdaraðila. Í verndaráætlun segir þó um óvélknúnar vatnaíþróttir  „ Sportsiglingar fæla fugla og skaða þá ímynd sem Mývatnssvæðið hefur sem heimsþekkt fuglaparadís. Fuglar fælast alla báta og önnur farartæki á vatni og þarf því að takmarka siglingar á Mývatni“.  Um vélbáta segir eftirfarandi í verndaráætlun „ Mikilvægt er að takmarka umferð vélknúinna báta á svæðinu vegna truflandi áhrifa á fugla. Endur færa sig frá bátum í allt að 1 km fjarlægð“.

Samkvæmt reglugerð 136/1978 sem enn er í gildi að því leyti sem hún gengur ekki gegn lögum nr. 97/2004, er notkun vélknúinna báta heimil á Mývatni með þeim takmörkunum þó að notkun er aðeins heimil í þágu atvinnurekstrar eða annarrar starfsemi sem nauðsynleg telst. Truflun af mannavöldum skal haldið í lágmarki og mikilvægt að takmarka alla umferð báta um vatnið, jafnt vélknúnum sem óvélknúnum vegna sérstöðu lífríkisins við Mývatn.

Umhverfisstofnun telur ljóst að náttúra Mývatns og Laxár er einstök á heimsvísu en lífríki Mývatns er einstætt t.d. vegna þess að talið er að þar haldi sig fleiri andartegundir en nokkurs staðar annars staðar á jörðinni. Á Mývatni er að finna stærstu flórgoðabyggð landsins og gerir hann sér flothreiður í gróðri við bakkana. Húsönd sem er einkennisfugl Mývatns byggir tilvist sína á vatnakerfi Mývatns og Laxár en að auki er þar að finna fuglategundir sem finnast óvíða annars staðar hér á landi, hrafnsönd og gargönd. Allar íslenskar tegundir varpfugla, fyrir utan brandönd, verpa við Mývatn og Laxá.

Umhverfisstofnun synjaði því Norðursiglingu um ofangreint leyfi fyrir 5 ára tilraunasiglingum með farþega á Mývatni, í samræmi við það sem að framan greinir. Starfsemin er talin geta haft truflandi áhrif á fuglalíf Mývatns auk þess sem verndaráætlun gerir ekki ráð fyrir atvinnustarfsemi af því tagi sem sótt er um.